Félagið Stakksberg ehf., sem er í eigu Arion banka og heldur utan um rekstur kísilverksmiðju í Helguvík á Reykjanesskaga, var rekið með tæplega 1,4 milljarða króna tapi í fyrra.
Árið áður var félagið rekið með 2,8 milljarða króna tapi. Arion banki fékk kísilverksmiðjuna í fangið er bankinn tók yfir eignir United Silicon, sem varð gjaldþrota í byrjun árs 2018, upp í skuld félagsins við bankann.
Eignir Stakksbergs námu 4,5 milljörðum krónum um síðastliðin áramót og skuldir 15 milljörðum króna, sem samanstanda nær alfarið af láni frá móðurfélaginu. Þá var eigið fé Stakksbergs neikvætt um 10,5 milljarða króna.
Í skýringum við ársreikning félagsins kemur fram að neikvæð eiginfjárstaða geti kastað vafa á möguleika félagsins að starfa áfram á grunni rekstrarhæfis. Viðskiptamódel Stakksbergs ehf. byggi á því að verksmiðja félagsins verði starfhæf á fyrsta ársfjórðungi 2024, en til staðar sé veruleg óvissa um framtíðarhorfur og fjármögnun vegna verksmiðju félagsins.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.