Lokaútgáfa fjárlaga hefur verið birt á vef Alþingis. Ekki er heimilt að greiða gjald úr ríkissjóði nema heimild sé fyrir því í fjárlögum.

Í lokaútgáfunni kemur fram að halli á rekstri ríkisins á næsta ári mun nema 119,6 milljöðrum króna. Þegar Bjarni Benediktsson kynnti fjárlögin í september átti hallinn að nema 79 milljörðum.

Ríkisútgjöld aukast um 193 milljarða ef tekið er tillit til 50 milljarða einskiptiskostnaðar vegna Covid-19 á árinu í fjárlögum 2022.

Segja útgjaldaaukninguna stjórnlausa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði í ræðu sinni í atkvæðagreiðslu við þriðju umræðu að um væri að ræða sögulega stund. Verið væri að setja Íslandsmet.

Herra forseti. Ég vildi bara vekja athygli á því að við erum hér að upplifa sögulega stund. Hópur þingmanna er að fara að setja Íslandsmet, og ekki bara eitt heldur nokkur, í ríkisútgjöldum; Íslandsmet í stærð báknsins; Íslandsmet í aukningu ríkisútgjalda milli ára, hvort sem það er í krónutölu eða hlutfallslega, og Íslandsmet í áformum um áframhaldandi hallarekstur ríkissjóðs.