Bandaríkjaher hyggur á 94 milljóna dala uppbyggingu innan öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli, eða sem samsvarar ríflega 12 milljörðum króna, á árunum 2023 til 2025. Í fjárhagsáætlun bandaríska flughersins fyrir árið 2023 er gengið út frá því að framkvæmdin verði fullfjármögnuð á næsta ári.

Um er að ræða fimmtu stærstu fjárfestingu flughersins í stöku uppbyggingarverkefni á árinu 2023 á heimsvísu og stærstu fjárfestinguna í stöku verkefni utan Bandaríkjanna.

Fjármögnun er alfarið á herðum bandarískra stjórnvalda en að framkvæmdum loknum verða byggingarnar eign íslenska ríkisins, sem getur fengið afnot af þeim samkvæmt samkomulagi.

Í áætlun hersins kemur fram að óskað verði eftir forfjármögnun Atlantshafsbandalagsins (NATO) þrátt fyrir að uppbyggingin falli sem stendur ekki undir samþykkt verkefni bandalagsins, en með yfirlýsingu um forfjármögnun NATO mun hernum verða kleift að sækja endurgreiðslu síðar meir ef breyting verður þar á.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .