Franski fjárfestingarsjóðurinn Vauban Infrastructure Partners keypti síðla árs 2021 meirihluta í íslenska gagnaversfyrirtækinu Borealis Data Center sem áður hét Etix Everywhere Borealis. Etix Financial Holding Europe Sarl (Etix Group), sem átti 63% hlut í Borealis á Íslandi við söluna, bókfærði söluhagnað upp á 123 milljónir evra, um 17 milljarða króna.

Þegar hagnaðurinn er lagður saman við bókfært virði Etix á Íslandi árið 2020 má áætla að Borealis á Íslandi hafi verið metið á 200 milljónir evra í viðskiptunum, eða sem nemur tæpum 28 milljörðum króna miðað við núverandi gengi.

Íslensk félög fóru með hin 37% í Borealis sem áætla má að sé um 10 milljarða virði miðað við verðmat félagsins í viðskiptunum.

Borealis Data Center rekur tvö gagnaver hér á landi, á Blönduósi og á Fitjum í Reykjanesbæ.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.