Róbert Wessman er í viðtali við tímaritið Pedalar þar sem hann ræðir um alvarlegt hjólreiðaslys sem hann lenti í sumarið 2013.
Slysið atvikaðist á þann hátt að Róbert var á um 48 km hraða á Krýsuvíkurvegi. Róbert var að hjóla á eftir bílum en áttaði sig ekki á að einn bíll hafði snögglega staðnæmst á miðjum veginum. Hann lenti á bílnum á fullum hraða og missti meðvitund. Róbert hryggbrotnaði í slysinu og segir að hann hafi verið heppinn að hafa ekki lamast.
Róbert var rúmliggjandi í um þrjá mánuði í kjölfar slyssins en í viðtalinu segist hann ennþá glíma við eftirköst slyssins. Honum er stöðugt óglatt og glímir við króníska verki í hálsi og baki en þetta trufli hann þó ekki í vinnu eða í daglegu amstri. Róbert segir að slysið hafi ekki haft neikvæð áhrif á sjálfstraustið, en hann segir að þetta sé allt spurning um hvernig menn takist á við það að lenda í svona slysi.