Farþegafjöldi Play nam 88 þúsund manns í júní, samanborið við 57 þúsund mánuðinn á undan og því um 55% aukning á farþegafjölda á milli mánaða. Þá mældist sætanýting í júní 79,2% samanborið við 69,6% í maí. En í byrjun júlí bæti flugfélagið sjöttu þotunni við flota sinn.
Sjá einnig: Sjötta þotan bætist við flota Play
Farþegafjöldi Play í júní jafnast nánast á við heildarfjölda farþega ársins 2021 á fyrstu sex mánuðum starfseminnar.
Birgir Jónsson, forstjóri Play:
„Júní markar enn ein tímamótin í sögu PLAY. Við starfræktum loks tengiflugsleiðarkerfið allt eins og það leggur sig og það með sex flugvélar í notkun. Það er frábært að sjá einingarkostnaðinn snarlækka þegar við höfum náð þessum skala í starfseminni. Nú höfum við náð markmiðum okkar um að einingarkostnaður án eldsneytis (CASK ex-fuel and emissions) sé minni en fjögur sent, í takt við þær áætlanir sem félagið hefur þegar kynnt. Þetta skiptir sköpum þegar kemur að því að bjóða upp á lægsta verðið á mörkuðum okkar. Þar ræður lágur grunnkostnaður úrslitum."
Þá segir hann tölfræðina staðfesta gundvallarhagkvæmni viðskiptamódelsins sem lagt var upp með og sér fram á að hægt verði að lækka kostnaðinn enn frekar á næstu misserum.
„Flugrekstraraðilum í Evrópu hefur reynst erfitt að skala starfsemina aftur upp og það hefur bitnað á okkur eins og öllum öðrum, en þeim mun stoltari er ég af starfsfólki okkar á flugrekstrarsviði, tæknifólkinu okkar, áhafnarmeðlimum og þjónustuteyminu okkar. Ég get ekki annað en dáðst að því hvernig þau hafa tryggt stundvísi og sem besta upplifun fyrir farþega okkar á tímum þar sem við erum að stækka mjög hratt og ástandið er eins erfitt á alþjóðaflugvöllum og raun ber vitni.
Ég tek hattinn ofan fyrir þessu fólki og öllu starfsfólki PLAY og þakka þeim fyrir þrotlausa vinnu og metnað.”
Icelandair tilkynnti um sætanýtingu sína í gær en hún var 83% í júní.
Sjá einnig: Sætanýting Icelandair 83% í júní