Samkvæmt Samskipum á ætlað samráð Eimskips og Samskipa á árunum 2006 til 2013 sér enga stoð í raunveruleikanum. Ganga forsvarsmenn svo langt að kalla meint samráð ímyndun Samkeppniseftirlitsins í andmælum sínum sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.
Sakar Samskip nýja forsvarsmenn Eimskips um að hafa keypt sig frá málinu með falskri játningu en að því sem Samskip kemst næst er afstaða fyrrum forsvarsmanna Eimskips um að engin brot hafi átt sér stað, óbreytt.
Samskip segir ályktanir SKE rangar og í engum tengslum við gögn eða staðreyndir.
„Stofnunin hefur farið offari við rannsókn málsins og gagnaöflun og hefur nú, 10 árum eftir að rannsókn málsins hófst, sett saman frumniðurstöður sem eru ekki í nokkrum tengslum við raunveruleikann. Fullyrða má að sambærileg aðferðafræði hafi ekki áður sést í samkeppnismálum hér á landi og þótt víðar væri leitað. Settar eru fram kenningar og ályktanir um brot í hundraða eða þúsunda tali, án þess þó að beinum sönnunargögnum sé til að dreifa,” segir í andmælum Samskips sem skilað var inn til Samkeppniseftirlitsins áður en niðurstaða fékkst í málið.
Samkeppniseftirlitið lagði 4,2 milljarða króna stjórnvaldssekt á Samskip á föstudaginn vegna meintra samráðsbrota á árunum eftir hrun en rannsókn málsins hefur staðið yfir frá árinu 2010.
Harma að eftirlitið hafi knúið fram játningu
Samkvæmt Samskipum urðu kenningar og ályktanir Samkeppniseftirlitsins fyrst ljósar þegar SKE birti fyrirtækjunum andmælaskjal í júní 2018. Samskip skilaði þremur andmælaskjölum sem eru á þriðja þúsund blaðsíður.
Segir í andmælum að það kom Samskipum mjög á óvart þegar um miðjan júní 2021 var tilkynnt um sátt Eimskips við Samkeppniseftirlitið í málinu og greiðslu sektar „eftir mjög skammar viðræður enda um viðsnúning á afstöðu að ræða.“
„Samskip harma að eftirlitið hafi knúið fram hjá Eimskipi falska játningu brota, þar sem nýir stjórnendur virðast hafa tekið ákvörðun um að kaupa sig frá frekari málarekstri með greiðslu sektar og ljúka málinu þannig,“ segir í andmælum Samskipa sem telja jafnframt að SKE hafi með ákvörðun sinni fært Eimskipi, sem er með yfirburðastöðu á íslenskum sjóflutningsmarkaði, vopn í hendur.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.