Sakfellingu fyrrum miðlara Deutsche bank sem lýsti sig sekan af samráði við ákvörðun LIBOR-millibankavaxta hefur verið snúið við af bandarískum áfrýjunardómstól. Lögmaður hans segist líta svo á að niðurstaða dómsins hafi verið sú að „ekkert misjafnt á nokkurn hátt hafi átt sér stað“. Öllum bandarískum dómum fyrir þátttöku í samráðinu hefur þar með verið snúið við.

Fyrir áratug síðan viðurkenndi Mike Curtler fyrir dómi að hafa tekið við og farið eftir fyrirmælum frá starfsmönnum annarra banka um hvernig þeir skyldu svara daglegri fyrirspurn um á hvaða vöxtum bankinn teldi sig geta sótt sér skammtímafjármögnun á millibankamarkaði.

Alls 16 bankar sendu slíkt mat daglega – þeirra á meðal Deutsche bank – og af þeim var svo tekið meðaltal og það birt sem vaxtastig dagsins á millibankamarkaði Lundúnarborgar (e. London interbank offered rate eða LIBOR).

Bretland það eina þar sem samráðsdómar hafa staðið

Alls hafa 38 þáverandi miðlarar verið sóttir til saka fyrir þátt sinn í samráðinu sem fólst í að senda, taka við og fylgja eftir beiðnum um að gefa „hátt“ eða „lágt“ mat á áðurnefndum vaxtakostnaði.

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna komst að þeirri niðurstöðu og lýsti því yfir árið 2012 að háttsemin hefði falið í sér refsiverðan verknað þegar það sektaði breska bankann Barclays fyrir hann.

Sannanirnar gegn Curtler og fleirum fólust fyrst og fremst í tölvupóst- og annarskonar samskiptum og Curtler – sem átti yfir höfði sér allt að 15 ára fangelsisvist yrði hann sakfelldur fyrir bandarískum dómstól – ákvað að gangast við brotinu og samdi við ákæruvaldið fremur en að freista gæfunnar í réttarhöldum.

Í janúar síðastliðnum voru þeir sem látið höfðu á það reyna fyrir þarlendum dómstólum og lýst sig saklausa en ekki haft erindi sem erfiði á hinu upphaflega dómsstigi, sýknaðir fyrir áfrýjunarrétti með þeim rökum að samráðið eins og það fór fram hefði ekki falið í sér lögbrot.

Sambærilegur dómstóll hefur nú komist að sömu niðurstöðu í máli Curtlers þrátt fyrir játninguna og sektaryfirlýsinguna. Í frétt BBC um málið er haft eftir lögmanni Curtlers, David Krakoff, að þar á bæ ríki „mikil gleði með að mannorð hans hafi verið hreinsað og að dómstólar hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekkert misjafnt hafi átt sér stað á nokkurn hátt“.

Aðeins í Bretlandi hafa bankastarfsmenn nú verið dæmdir í fangelsi, alls 9 manns, fyrir þátt sinn í samráðinu og dómurinn verið staðfestur af æðra dómsstigi.

Myndar enn grunn 32 milljóna milljarða króna fjármálagerninga

Frá því samráðshneykslið sem Curtler og félagar gengust við og voru dæmdir fyrir að hafa tekið þátt í kom upp árið 2012 hafa ýmsar umbætur verið gerðar á aðferðafræðinni auk þess sem talað hefur verið fyrir því að notkun tölunnar sem vaxtagrunns í samningum verði skipt út fyrir annað viðmið.

Bankarnir stunduðu fæsta daga raunveruleg viðskipti á millibankamarkaði og voru því sjaldnast bundnir af matinu með nokkrum hætti, né gátu vaxtakjör í viðskiptum sem engin voru gefið vísbendingar um að matið væri ekki gefið í góðri trú.

Sambærileg vaxtaviðmið eru reiknuð víða, meðal annars EURIBOR í Evrópu og REIBOR í Reykjavík, en LIBOR er sú lang þekktasta og þjónaði sem grunnur fyrir 223 billjóna (e. trillion) dala, eða hátt í 32 milljóna milljarða króna, virði af fjármálagerningum árið 2020.