Samband íslenskra sveitarfélaga hefur undirritað rammasamning við netöryggisfyrirtækið Syndis um veitingu á vöktunarþjónustu fyrirtækisins fyrir sveitarfélög landsins.
Með samningnum fá sveitarfélögin aðgang að sérhæfðri SOC (Security Operation Centre) og AFTRA (External Attack Surface Management) þjónustu á hagstæðum kjörum.
SOC-þjónusta Syndis felur meðal annars í sér sólarhringsvöktun á netumferð og tölvukerfum sveitarfélaganna með sérstaka áherslu á upplýsingaöryggi. Sérfræðingar Syndis geta síðan brugðist við óeðlilegri netumferð og mögulegum ógnum, greint þær og komið í veg fyrir tjón sem gæti orðið vegna netárása.
„Við hjá Syndis leggjum mikla áherslu á að gera Ísland öruggara og bæta almennt netöryggi samfélagsins. Með þessum samningi við Samband íslenskra sveitarfélaga tryggjum við öllum sveitarfélögum landsins greiðan aðgang að öflugum vörnum gegn tölvuárásum. Þetta samstarf er mikilvægur áfangi í þeirri vegferð að styrkja stafrænar varnir landsins í heild sinni,“ segir Anton Egilsson, forstjóri Syndis.
Samningurinn er sagður vera liður í víðtækara netöryggisverkefni sambandsins sem ætlað er að auka þekkingu og viðbúnað sveitarfélaganna gagnvart sífellt vaxandi netógnum.