Norræna jafnréttisverðlaunahátíðin Blaze Awards 2022 fór fram í Osló síðastliðinn laugardag og urðu Samkaup þar hlutskörpust í flokkisamvirkni (e. synergist) á Norðurlöndunum. Flokkurinn nær yfir fyrirtæki sem hafa skuldbundið sig til að vinna að bættu jafnrétti innan fyrirtækisins og með þeim hætti haft áhrif út í nærsamfélagið. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Samkaup voru fyrr í sumar valin úr hópi fjögurra íslenskra fyrirtækja og var það jafnréttisátakið Jafnrétti fyrir alla – Samkaup alla leið sem unnið var í samvinnu við Samtökin ´78, Þroskahjálp og Mirru fræðslusetur fyrir erlent starfsfólk, sem tryggði Samkaup áfram í úrslit.

Samkaup öttu því kappi við önnur öflug norræn fyrirtæki, sem einnig höfðu borið sigur úr býtum í sínum heimalöndum og voru það hið sænska Spotify, Futurice frá Finnlandi, Develop Diverse frá Danmörku og Sopra Steria frá Noregi.

Norsku samtökin Diversify veittu verðlaunin en meginmarkmið samtakanna er að hampa og varpa ljósi á brautryðjendur, fyrirtæki og einstaklinga, sem skara fram úr og vinna markvisst að því að stuðla að bættri fjölbreytni, atvinnuþátttöku minnihlutahópa og jafnrétti almennt innan fyrirtækja á norðurlöndunum, að því er kemur fram í tilkynningu.

Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og samskiptasviðs Samkaupa:

„Við erum ákaflega stolt og þakklát fyrir að hljóta þessa viðurkenningu. Samkaup hafa sett sér háleit og metnaðarfull markmið og við erum bara rétt að byrja. Blaze verðlaunin eru okkur mikilvæg hvatning á þeirri vegferð sem við höfum verið á og styrkja okkur enn frekar í að halda áfram að vera leiðandi vinnustaður þar sem unnið er markvisst gegn fordómum og hvers kyns mismunun, sem svo skilar sér tvímælalaust út í samfélagið okkar.“