Ný samstæða Vátryggingafélags Íslands (VÍS), Fossa fjárfestingarbanka og SIV eignastýringar hefur fengið nafnið Skagi. Þetta var tilkynnt fyrir skömmu á viðburði á Kjarvalsstöðum með fjárfestum sem hófst klukkan fimmleytið í dag.
Haraldur Þórðarson, forstjóri samstæðunnar, sagði að nafnið væri tilvísun í íslenska náttúru en það væri að finna skaga í öllum landsfjórðungum.
Sígilt litaval ítreki áherslu á stöðugleika og traust í bland við framsýni og nýsköpun
Fram kemur að ráðist hafi verið í ítarlega leit að nýju nafni. Starfsfólk samstæðunnar skilaði inn hátt í þrjú hundruð tillögum og að lokum fannst nafn sem stóðst allar kröfur.
„Nafn Skaga vísar í stórt nes eða langan höfða og þykir kröftugt en er á sama tíma stutt og hljómfagurt. Hinir ýmsu skagar landsins teygja sig tignarlega frá meginlandinu með fallegu útsýni yfir land og sjó. Tröllaskagi, Skipaskagi, Tindaskagi, Garðskagi og Skagatá - skaga er að finna í öllum landshlutum,“ segir í kynningu á nýju nafni samstæðunnar sem birt var samhliða fundarboði a aðalfund.
„Nafnið er viðeigandi fyrir fyrirtæki með djúpar rætur í íslensku samfélagi líkt og tryggingafélagið en nafnið vísar í einnig í markmið félagsins að tengja íslenskt atvinnulíf við erlenda markaði.“
Í kynningunni segir að útlit vörumerkis Skaga sé stílhreint og fágað. Sígilt litaval ítreki áherslur á stöðugleika og traust í bland við framsýni og nýsköpun.
Gengið var frá kaupum VÍS á Fossum fjárfestingarbanka í byrjun október síðastliðnum en ferlið hófst með viðræðum um sameiningu í febrúar 2023. Hluthafar Fossa fengu um 11% hlut í sameinuðu félagi sem endurgjald í viðskiptunum.
VÍS tilkynnti í september 2022 um stofnun SIV eignastýringar sem býður upp á sjóða- og eignastýringu. Félagið fékk starfsleyfi frá Fjármálaeftirliti Seðlabankans og hóf rekstur um mitt ár 2023. SIV myndar þriðju stoðina í samstæðu Skaga.
„Skagi er öflugt fyrirtæki á fjármálamarkaði sem stefnir á arðbæran vöxt á sviði trygginga, fjárfestingarbankastarfsemi og eignastýringar. Samstæðan býr að langri og farsælli sögu í tryggingarekstri, framsækni í fjármálaþjónustu og langtímaárangri í fjárfestingum. Í samstæðu Skaga eru VÍS, Fossar og SIV eignastýring,“ segir á nýrri heimasíðu samstæðunnar.
„Í fyrirtækjum Skaga er lögð áhersla á framúrskarandi þjónustu og traust langtímasamband við viðskiptavini. Enn fremur er samstæðan í farabroddi þegar kemur að tengingu íslensks atvinnulífs við alþjóðlegt fjárfestingarumhverfi.“