Meirihlutinn í Reykjavík heldur þrátt fyrir að fylgið minnki nokkuð. Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig frá því kosningunum, sem og Píratar og VG. Samfylkingin fer úr tæpum 32% í tæp 26% og Björt framtíð er nánast að hverfa af sjónarsviðinu. Útlit er fyrir að tólf flokkar bjóði fram í borginni og af þeim nýju mælist Viðreisn hæst eða með ríflega 6%.

Staða meirihlutans í Reykjavík hefur veikst samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið. Könnunin var gerð dagana 4. til 31. janúar. Gengið verður til kosninga laugardaginn 26. maí og þá verður borgarfulltrúum fjölgað úr 15 í 23. Samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins fær meirihlutinn 13 borgarfulltrúa en minnihlutinn 10.

Eftir kosningarnar í maí 2014 mynduðu Samfylkingin, Björt framtíð, Vinstrihreyfingin - grænt framboð (VG) og Píratar meirihluta. Flokkarnir fengu samtals 61,7% í kosningunum og 9 borgarfulltrúa af 15.  Samkvæmt könnuninni er meirihlutinn nú með samtals 54,7%. Í könnun, sem  Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið í júní á síðasta ári var meirihlutinn með 61,4%.

Björt framtíð að hverfa

Það sem skýrir fylgistap meirihlutans er sú staðreynd að Björt framtíð virðist vera að hverfa af pólitíska sviðinu. Flokkurinn fékk 15,6 í kosningunum fyrir fjórum árum en mælist nú einungis með 2,4% fylgi. Samfylkingin hefur einnig misst töluvert fylgi, Hún fékk 31,9% í kosningunum en mælist nú með 25,7%. Samfylkingin hefur aftur á móti bætt sig aðeins í samanburði við könnunina frá því í júní í fyrra en þá mældist hún með 22,3%.

VG og Píratar bæta upp fylgistap meirihlutans. VG, sem fékk 8,3% í kosningunum, mælist nú með 13,3%. Píratar fengu 5,9% í kosningunum en eru nú með 13,3% fylgi, eins og VG. Fylgi Pírata stendur nánast í stað í samanburði við könnunina í júní. VG dalar aftur á móti töluvert á milli þessara kannana því flokkurinn var með 20,8% í júní. Erfitt er að fullyrða hvað veldur þessu fylgistapi VG en hugsanlega hafa landsmálin áhrif, þ.e. sú staðreynd að VG fór í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.

Sjálfstæðisflokkurinn bætir sig

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn og flugvallarvinir hafa verið í minnihluta síðan í kosningunum. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru staða flokkanna gjörólík. Sjálfstæðisflokkurinn bætir aðeins við sig á sama tíma og Framsókn tapar miklu fylgi.

Þann 27. janúar fór fram leiðtogakjör í Sjálfstæðisflokknum, þar sem Eyþór Arnalds bar sigur út býtum. Þó flokkurinn hafi töluvert verið í umræðunni í janúar er erfitt að fullyrða nokkuð um það hvaða þýðingu koma Eyþórs inn í borgarmálin hefur haft fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Flokkurinn sækir í sig veðrið frá því í kosningunum 2014. Þá fékk hann 25,7% en nú mælist hann með 29,1%. Í júníkönnuninni mældist flokkurinn með 26,8%.

Könnun Gallup á fylgi flokkanna í Reykjavík fyrir Viðskiptablaðið fór fram 4. til 31. janúar
Könnun Gallup á fylgi flokkanna í Reykjavík fyrir Viðskiptablaðið fór fram 4. til 31. janúar

Framkvæmd könnunar

Könnun Gallup var netkönnun, sem gerð var dagana 4. til 31. janúar. Spurt var: Ef kosið yrði til borgarstjórnar í dag hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa/líklegast kjósa? Úrtakið var 2.021 Reykvíkingur, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr viðhorfshópi Gallup. Fjöldi svarenda var 1.081 og þátttökuhlutfallið 53,5%.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .