Securitas hagnaðist um 368 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 210 milljónir árið 2020. Rekstrartekjur námu 6,2 milljörðum og jukust um 3,8% á milli ára.

Í skýrslu stjórnar í nýbirtum ársreikningi segir að þjónustutekjur félagsins hafi einkum aukist vegna aukningar í öryggisgæslutengdum verkefnum sem megi að hluta til rekja til áhrifa Covid-faraldursins.

Í febrúar 2021 sömdu Veitur við Securitas um uppsetningu á 160 þúsund snjallmælum fyrir 1,8 milljarða króna. Áætlað er að verkinu verði lokið árið 2025. „Áhrif samningsins við Veitur ohf. hafði óveruleg áhrif á rekstur félagsins á árinu 2021. Fyrir utan samninginn við Veitur ohf. eru horfur góðar og reiknað er með því að starfsemi félagsins muni halda áfram að vaxa hóflega á árinu 2022.“

Eignir Securitas voru bókfærðar á 4,8 milljarða króna og eigið fé nam 1,4 milljörðum. Stekkur fjárfestingafélag, í eigu Kristins Aðalsteinssonar, á 56% í Securitas og framtakssjóðurinn Edda 42%. Ómar Svavarsson er forstjóri Securitas.