Vilhjálmur Bjarnason, fyrrverandi Alþingismaður, segir Kristrúnu Frostadóttur formann Samfylkingar ganga frá borði í sínum banka með 80 milljóna króna kaupauka á kostnað hluthafa eða viðskiptavina.
„Hluthafar banka eru aðallega lífeyrissjóðir vinnandi fólks, íslenskrar alþýðu. Nú fer formaðurinn mikinn fyrir íslenska alþýðu. Ef til vill fer formaðurinn að freta þegar nær dregur kosningum,” skrifar Vilhjálmur í Morgunblaðið í dag.
Í gær greindi Heimildin frá því að Kristrún hafi hagnast um 101 milljón króna af þriggja milljón króna fjárfestingu í kaupréttum. Eftir fyrirspurnarbréf um að hún ætti að greiða tekjuskatt af greiðslunum en ekki fjármagnstekjuskatt, greiddi hún 25 milljón krónur til skattsins.
Vilhjálmur segir gróða Kristrúnar greiddan af annað hvort hluthöfum eða viðskiptavinum bankans í grein sinni.
Skaði fyrir lífeyrissjóði
Vilhjálmur fer um víðan völl í Morgunblaðinu en nefnir þar að lánastofnanir séu fyrst og fremst fyrirtæki til að tryggja hagsmuni starfsmanna, þó aðallega stjórnenda með kaupaukum.
Þannig megi líta á sektargerð FME sem skaða fyrir íslenska lífeyrissjóði, eins og kaupauki starfsmanna.
Vilhjálmur segir upplýsingaóreiðu og hugtakarugling eiga sér stað í umræðum um íslenskan fjármálamarkað og bendir að á reiknivélar á heimasíðum banka og lífeyrrissjóða séu gagnlausar.
„Bankar og lífeyrissjóðir eru með „reiknivélar“ á heimasíðum sínum. „Reiknivélarnar“ eiga að sýna greiðslubyrði lána. Reiknivélarnar reikna rétt, en síðan er byrjað að delera með hugtök. Tvö mikilvæg hugtök eru þó aldrei nefnd í ályktunum af afrakstri reiknivéla. Það eru ávöxtunarkrafa og núvirðing. Með því verða „reiknivélarnar“ gagnslausar og afvegaleiða notandann,” skrifar Vilhjálmur.
„Fyrsta rangfærslan kemur til sögunar þegar kynnt eru „verðtryggð lán“ og „óverðtryggð lán“.
Svo virðist sem „verðtryggt lán“ sé lán þar sem breytileikinn vegna verðbólguálags er mældur með hlutlægum hætti. Hagstofa Íslands mælir breytileikann með vísitölu neysluverðs. Verðbólguálagi er dreift á eftirstöðvar lánstíma,“ heldur Vilhjálmur áfram.
Hægt er að lesa grein Vilhjálms hér.