Stefán Sveinbjörnsson, varaformaður stjórnar Live – sem hækkaði verðtryggða sjóðfélagalánavexti verulega nýverið – og framkvæmdastjóri VR, segir útlánavexti sjóðsins einfaldlega ákvarðaða út frá markaðsvöxtum. Ávöxtunarkrafa stysta verðtryggða ríkisskuldabréfsins í dag sem sé meginviðmið sjóðsins í þessum efnum, RIKS 26, hafi hækkað mikið undanfarið.

Hann segir markaðsvexti vissulega ekki hafa verið óbreytta allt frá því að sjóðurinn breytti síðast 5 ára vöxtunum í desember í fyrra, en stjórnin eltist ekki við hóflegar sveiflur milli tímabila. Sveiflurnar hafi þó verið öllu meiri síðustu vikur, og merkja megi greinilega leitni upp á við.

Eltu vextina ekki niður

Sjóðurinn elti markaðsvexti og samkeppnisaðila á hinn bóginn ekki niður á við á fyrri hluta ársins þegar krafa ríkisbréfsins varð neikvæð um allt að 0,8%, og þegar mest lét voru 5 ára verðtryggðir vextir Live því um 2,6% yfir því og allt að 0,55% yfir samkeppnisaðilum, en til samanburðar eru vextir Live í dag um 1% yfir ríkisvöxtunum. Stefán segir stjórnina hafa metið stöðuna sem svo að vextir sjóðsins væru á hæfilegum stað á þeim tíma.

„Það er svo alltaf spurning hvað aðrir gera, á hvaða kjörum þeir eru tilbúnir til að lána út þegar þú getur keypt stutta verðtryggða ríkisvexti í staðinn. Það er bara matsatriði á hverjum tíma hvert álagið á að vera og hvað þú sættir þig við að lána mikið miðað við þá grunnvexti sem þá bjóðast.“

Íbúðabréfin sveiflukennt viðmið

Hvað breytilegu verðtryggðu vextina varðar segir Stefán að viðmiðið séu fyrst og fremst íbúðabréf hins gamla Íbúðalánasjóðs, sem er ríkistryggt og verðtryggt. „Þar eru þau viðmið sem til staðar voru áður en við hættum að veita þessi lán, og þeim hefur bara verið haldið óbreyttum.“

Viðskipti með þau bréf eru hins vegar afar stopul, og verðmyndun því heldur óskilvirk, svo ekki sé meira sagt. Ávöxtunarkrafa HFF24, stysta slíka bréfsins, féll sem dæmi um 70 punkta á einu bretti í byrjun maí og varð neikvæð um 1,2%, vel undir stysta verðtryggða ríkisbréfinu. Sú krafa hélst svo óbreytt þar til í seinni hluta júní þegar hún hækkaði um slétt prósentustig í einu vetfangi.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.