Persónuverndareftirlit Írlands hefur sektað Instagram um 405 milljónir evra eða sem nemur 58 milljörðum króna fyrir að standa ekki vörð um persónuupplýsingar barna. Financial Times greinir frá.
Eftirlitið komst að þessari niðurstöðu eftir tveggja ára rannsókn, þar sem m.a. var kannað kvartanir um að Instagram hafi sjálfkrafa gert aðgang allra notenda, þar á meðal þeirra sem voru undir 18 ára aldri, aðgengilega fyrir alla notendur. Rannsóknin sneri einnig að því að hvernig tengiliðaupplýsingar barna sem notuðu fyrirtækjaaðgang á miðlinum voru aðgengilegar öllum.
Instagram, sem er opinn fyrir notendur yfir 13 ára aldurs, sagði að sektin tengist gömlum stillingum sem voru uppfærðar fyrir meira en ári. Samfélagsmiðilinn, sem er í eigu Meta, móðurfélags Facebook, segir að nýjar uppfærslur síðan hafi litið dagsins ljós sem tryggi öryggi persónuupplýsinga táninga auk þess að aðgangar krakka eru sjálfkrafa stilltir á „prívat“ þegar þeir skrá sig á miðilinn. Þessar breytingar tóku gildi í júlí 2021.
„Við höfum átt í virku samtali við eftirlitið á meðan athugun þeirra stóð yfir en erum ósammála hvernig sektarfjárhæðin var reiknuð út og hyggjumst áfrýja niðurstöðunni. Við erum enn að rýna vandlega í restina af ákvörðuninni,“ segir í tilkynningu Instagram.