Kjötkompaníið, sem rekur sérverslanir með kjöt, meðlæti og fleira á þremur stöðum á höfuðborgarsvæðinu, hagnaðist um 4,2 milljónir króna í fyrra. Er það betri afkoma en árið 2020 þegar félagið var rekið með tæplega 18 milljóna króna tapi.
Velta félagsins nam tæpum 1,4 milljörðum króna á síðasta ári, sem er 110 milljónum króna meiri velta en árið á undan. Hefur velta félagsins aukist töluvert síðustu eða nánast tvöfaldast frá árinu 2017 þegar nún nam tæpum 740 milljónum króna. Eignir félagsins voru metnar á 318 milljónir króna um síðustu áramót samanborið við 299 árið á undan. Skuldirnar jukust úr 283 milljónum í 298 á milli ára. Eigið fé félagsins um síðustu áramót nam 20 milljónum króna.
Í skýrslu stjórnar segir að enginn arður verði greiddur vegna rekstrarsins árið 2021. Ennfremur segir í skýrslunni að mikil óvissa hafi skapast á tímum kórónuveirunnar. "Starfsemi félagsins hefur verið án stóráfalla á þessum tíma og áhrif faraldursins á verkefnastöðu og fjármál félagsins hafa verið mjög viðráðanleg. Það er mat stjórnenda að ekki leiki vafi um rekstrarhæfi félags vegna þessara aðstæðna," segir í skýrslunni. Kjötkompaní er í eigu Jóns Arnar Stefánssonar.
Fréttin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út 1. september.