Akureyrska millilandaflugfélagið Niceair mun fljúga jómfrúarflug sitt 2. júní næstkomandi. Að flugfélaginu stendur Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson ásamt fólki og fyrirtækjum sem er að mestu leyti frá Norðurlandi. Þar á meðal eru félög á borð við KEA, Ferðaskrifstofu Akureyrar, Höldur - Bílaleiga Akureyrar, Kaldbakur (Samherji), Norlandair og Bruggsmiðjan Kaldi. Komu umræddir hluthafar inn í félagið í febrúar síðastliðnum er hlutafé þess var hækkað úr 500 þúsund krónum í 207 milljónir króna en enginn hluthafa á yfir 8% hlut.
Að sögn Þorvaldar var um að ræða fyrri fjármögnunarumferð af tveimur sem fyrirhugaðar voru við stofnun félagsins. Ráðist verði í síðari fjármögnunarumferðina í maí eða júní næstkomandi. „Það á eftir að ákveða stærð útboðsins og hvort það verði einungis ætlað núverandi hluthöfum eða hvort fleiri aðilum verði boðið að taka þátt." Hann segir óhætt að slá því föstu að seinni fjármögnunarumferðin verði stærri en sú fyrri en stjórn félagsins ákveði þó endanlega stærð fjármögnunarumferðarinnar.
Salan farið fram úr væntingum
Til að byrja með mun Niceair fljúga til Bretlands, Danmerkur og Spánar. Þorvaldur segir viðskiptamódel Niceair ekki síst snúast um að fljúga til flugvalla sem bjóði upp á mikinn fjölda tengimöguleika, eins og t.d. London Stansted og Kastrup. „Út frá Kastrup er hægt að fljúga til yfir 200 áfangastaða og út frá London yfir 400 áfangastaða."
Hann segir sölu flugmiða hafa farið vel af stað og þegar hafi um 35% af flugsætum sem séu inni á sumaráætlun félagsins selst. „Bókunarvélin okkar hefur verið opin í um sex vikur. Þessi sala er aðeins meiri en við höfðum gert okkur væntingar um svo við berum okkur vel."
Áform Icelandair óljós
Á þriðjudag greindi Vísir frá því að Icelandair stefndi á að hefja á ný flugferðir milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar og stórauka þannig samtenginu innan- og millilandaflugs. Viðraði Bogi Nils Bogason, forstjóra Icelandair Group, þessi áform á ráðstefnu Markaðsstofu Norðurlands. Verði þetta að veruleika gera áætlanir Icelandair ráð fyrir að hægt verði að fljúga til og frá 42 áfangastöðum frá Norðurlandi með stoppi á Keflavíkurflugvelli á sumrin.
Hafa einhverjir túlkað þessi áform sem svar Icelandair við innkomu Niceair á flugmarkaðinn. Þorvaldur gefur þó lítið fyrir þá túlkun og bendir á að Icelandair hafi tvisvar sinnum áður reynt að halda uppi flugi milli Akureyrar og Keflavíkur, síðast árið 2018, en hafi hætt því sökum tapreksturs. Hugsanlega bendi áformin til þess að eitthvað mikið hafi breyst.
„Bara flugið milli Akureyrar og Keflavíkur kostaði að mig minnir um 80 þúsund krónur báðar leiðir á hvern farþega á sínum tíma. Svo bættist verð flugmiðans til og frá Keflavík ofan á heildarflugkostnaðinn fyrir Norðlendinga. Við ætlum að bjóða hagstæðara verð en það beint til tengivalla í Evrópu með mun meir fjölda áfangastaða en Keflavík býður upp á. Þá er óljóst hvenær Icelandair ætlar að láta reyna á að hefja tengiflugið á ný. Það er ekki óeðlilegt að fólk velti fyrir sér hvort þessi áform snúist um að koma í veg fyrir að nýr samkeppnisaðili komist inn á markaðinn. Ég sé þetta aftur á móti sem góða viðbót fyrir ferðamöguleika íbúa landsbyggðarinnar. Þetta gæti einnig hjálpað til við að stækka kökuna og dreifa ferðamannastraumnum um allt landið."
Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:
- Sagt er frá íslensku félagi sem framleiðir rafhjól.
- Rætt við Friðrik Þór Snorrason forstjóra tryggingatæknifélagsins Verna.
- Fjallað um fyrirhugaða skráningu Nova á markað.
- Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, ræðir Íslandsbankasöluna.
- Hluthafar Allrahanda GL, auk annarra hugsanlegra fjárfesta, ætla sér að leggja fram nýtt fé til að fjármagna uppgjör á fyrirhuguðum nauðasamningi.
- Fyrirtækin sjö sem taka þátt í viðskiptahraðlinum Hringiðu eru kynnt til leiks.
- Hrönn Greipsdóttir, nýr framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, ræðir nýja starfið.
- Fjölmiðlarýnir fjallar meðal annars um depurð meðal þingmanna sem vilja setja á laggirnar rannsóknarnefnd og virðisbreytingar Félagsbústaða.
- Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem fjallar um kaup bílasala á samfélagsmiðlinum Twitter.
- Óðinn skrifar um hlutabréfasölu Kristrúnar Frostadóttur og frábæra hugmynd Dags B. Eggertssonar.