dk hugbúnaður hefur vaxið ört undanfarin ár og hafa tekjur hugbúnaðarfyrirtækisins tvöfaldast á síðustu sex árum. Velta félagsins nam tæplega 2,3 milljörðum króna í fyrra og jókst um 16% frá fyrra ári. Jafnframt skilaði dk hugbúnaður 485 milljóna hagnaði á árinu 2022 en afkoma félagsins hefur aldrei verið betri.
Margrét Sveinbjörnsdóttir, sviðsstjóri sölu- og markaðssviðs dk hugbúnaðar, segir að vöxtur félagsins hafi verið mjög góður undanfarin ár og verið að jafnaði um 14-18% á ári. Hún rekur árangurinn til öflugs hóps starfsmanna og góðs vöruframboðs sem er sérsniðið að íslenskum aðstæðum.
„Við bjóðum upp á alhliða viðskipta- og upplýsingakerfi sem er þróað á Íslandi fyrir íslenskar aðstæður. Við erum með mjög breiðan viðskiptavinahóp, allt frá einyrkjum yfir í félagasamtök, veitingastaði, verslanir, heilbrigðislausnir og stærri og meðalstór fyrirtæki.“
dk hugbúnaður, sem fagnaði nýlega 25 ára afmæli sínu, er kominn með yfir 7 þúsund viðskiptavini. Margrét segir félagið vera leiðandi á sviði viðskiptahugbúnaðar fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki en markaðshlutdeild dk meðal þessa hóps sé um 55%.
Einn stærsti hýsingaraðilinn
Hugbúnaðarfyrirtækið var stofnað árið 1998 og var fyrsta vara dk framtalsforrit sem náði fljótt vinsældum. Í dag býður félagið upp á alhliða viðskiptahugbúnað sem inniheldur m.a. bókhalds-, launa-, sölu-, birgða-, verkbókhalds- og afgreiðslukerfi.
dk hefur einnig þróað ýmsar aðrar nýjungar eins og dk One sem er app- og veflausn. Í dk One, sem er eins og framlenging á bókhaldskerfinu, er hægt að vera með sölukerfi, tímaskráningu í verkbókhaldi, samþykktarkerfi og skráð kostnað með því að taka myndir af kvittunum sem tengist beint við bókhaldið svo fátt eitt sé nefnt.
Í ár kom út ný lausn í afgreiðslukerfinu, dk Pos App, þar sem rekstraraðilar geta verið með afgreiðslukerfi og posa í einu tæki sem jafnframt tengist bókhaldskerfi dk með einföldum hætti að sögn Margrétar.
Allt frá árinu 2006 hefur dk hugbúnaður boðið upp á hýsingarþjónustu undir heitinu dkVistun sem gerir notendum kerfisins kleift að tengjast þjónustunni í gegnum netið. Félagið sér um alla afritun gagna og annast uppfærslu hugbúnaðar sem tryggir aukið rekstraröryggi.
„Við erum einn stærsti hýsingaraðilinn á landinu. Við erum að hýsa yfir 30 þúsund einstök fyrirtæki. Þessi þjónusta hefur vaxið mjög mikið síðan árið 2006 þegar hýsingarþjónustan var stofnuð.“
Fyrirtæki TSS hjálpist að
Í árslok 2020 gekk Total Specific Solutions (TSS), dótturfélag alþjóðlegu hugbúnaðarsamstæðunnar Tobicus, frá kaupum á dk hugbúnaði sem var þá að mestu í eigu stofnenda félagsins.
Margrét segir að það hafi verið mjög góð reynsla að fá TSS að borðinu en viðurkennir þó að það hafi verið krefjandi á köflum að aðlaga starfsemina að nýjum eiganda.
„Það urðu ákveðnar breytingar t.d. er varða verkferla þar sem lagt er upp með að vinna hlutina aðeins öðruvísi en áður. Þetta hefur þó heilt yfir gengið mjög vel og við fáum mikinn stuðning frá TSS og fyrirtækjum innan samstæðunnar sem miðla sinni reynslu til okkar. Að sama skapi getum við lagt okkar að mörkum til að aðstoða önnur félög innan TSS,“ segir Margrét og bætir við að dk hugbúnaður starfi áfram sem sjálfstæð rekstrareining.
Flytja í nýtt húsnæði
Starfsmenn dk hugbúnaðar eru í dag um 60 talsins. Margrét segir að nokkrir þeirra hafi verið hjá félaginu í 10-15 ár og jafnvel lengur. Hún bendir einnig á að fjöldi kvenna starfi hjá hugbúnaðarfyrirtækinu en hlutfall þeirra var 42% í fyrra samkvæmt ársreikningi félagsins. Þá sé meirihluti stjórnarmanna konur.
dk hugbúnaður undirbýr þessa dagana að flytja höfuðstöðvar sínar úr Turninum í Kópavogi í nýja skrifstofuhúsnæðið að Dalvegi 30, þar sem Deloitte og Reiknistofa bankanna hafa einnig nýlega flutt inn. dk er einnig með starfsstöð að Hafnarstræti 53 á Akureyri.
Nánar er fjallað um málið í blaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Blaðið er opið öllum og hægt er að skoða það hér.