Frá stofnun Verðbréfamiðstöðvar Íslands (VBM) árið 2015 hafa eigendur félagsins lagt því til tæplega 1,6 milljarða króna í formi hlutafjár.
Samkvæmt ársreikningum VBM á tímabilinu 2015 til 2022 nam samanlagt innborgað hlutafé tæplega 1,5 milljörðum króna. Í ársreikningi síðasta árs kemur svo fram að á hluthafafundi í nóvember á síðasta ári hafi verið veitt heimild til að auka hlutafé um 100 milljónir króna fyrir mitt yfirstandandi ár. Halldóra G. Hinriksdóttir, framkvæmdastjóri VBM, staðfestir að heimildin hafi verið nýtt. „Á föstudaginn í síðustu viku lauk fresti til að skila inn bindandi áskriftarloforðum og allt gekk samkvæmt áætlun. Félagið er vel fjármagnað, tilbúið í frekari sókn og standa eigendur þétt við bakið á því.“
Eigendahópur VBM hefur tekið nokkrum breytingum á þessum átta árum en um síðustu áramót nam eignarhlutur stærsta eigandans, framtakssjóðsins Innviðir fjárfestingar sem er að mestu fjármagnaður af lífeyrissjóðum, tæplega 76%. Íslandsbanki og Arion banki áttu um 3% hlut, auk þess sem nokkrir lífeyrissjóðir áttu beinan hlut á bilinu 3,38% til 0,19%. Þá átti lögmannsstofan Lagahvoll rúmlega 3% hlut og vörslu- og uppgjörsþjónustan T-plús 0,06% hlut.
VBM var eins og fyrr segir stofnað árið 2015 og var markmiðið að fara í beina samkeppni við Nasdaq á Íslandi sem hafði fram að þessu verið eina verðbréfamiðstöð landsins. Líkt og reiknað var með var VBM tekjulaust fyrstu árin meðan starfsemin var á undirbúningsstigi. Á síðasta ári námu rekstrartekjur félagsins rúmlega 12 milljónum krónum og árið áður námu þær tæplega 10 milljónum. Fram að því hafði félagið verið nær tekjulaust frá stofnun. Á sama tíma fylgir því að sjálfsögðu kostnaður að reisa nýja verðbréfamiðstöð frá grunni og nemur uppsafnað tap VBM á átta ára tímabilinu rúmlega 607 milljónum króna.
Skilað lægri vörslugjöldum
Í máli nokkurra forsvarsmanna úr eigendahópi VBM sem Viðskiptablaðið ræddi við kom fram að fjárfesting þeirra í VBM hafi frá stofnun félagsins skilað sér í því að Nasdaq hafi lækkað verðskrá sína og þannig sparað eigendunum kostnað í formi lægri vörslugjalda.
„Nasdaq er búið að lækka verðskrána sína fjórum sinnum frá stofnun VBM,“ segir Halldóra. „Markaðurinn hefur því haft mikinn hag af því að fá nýtt félag inn á markaðinn. Sumir hlutahafar hafa fengið stóran hluta af þeim fjármunum sem þeir hafa lagt inn í félagið til baka í formi lægri vörslugjalda hjá Nasdaq verðbréfamiðstöð. Þannig að þó að það hafi tekið langan tíma að koma félaginu í fulla starfsemi þá hefur markaðurinn haft hag af innkomu þess. Við ætlum okkur þó mun stærri hluti en einungis það að stuðla að því að Nasdaq lækki verðskrá sína stöku sinnum.“
Spurð um hvort hún telji að VBM geti stóraukið tekjur sínar og þannig staðið undir rekstrarkostnaði kveðst Halldóra vongóð um það. „Við höfum fengið jákvæð viðbrögð í samtölum sem við höfum átt við fyrirtæki, útgefendur verðbréfa og aðra á markaðnum. Fyrrnefnd nýsett reglugerð, sem tryggja á samkeppni, ætti að gera okkur auðveldara fyrir við að sækja nýja viðskiptavini og þannig auka tekjurnar. .
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild sinni hér.