Íslenska heilbrigðistæknifyrirtækið Sidekick Health hefur fest kaup á þýska heilbrigðistæknifyrirtækinu PINK! sem hefur sérhæft sig í stuðningsmeðferðum fyrir fólk með brjóstakrabbamein. Með kaupunum breikkar Sidekick enn frekar vöruframboð sitt á sviði heilbrigðistækni.

Tryggvi Þorgeirsson, forstjóri og annar stofnenda Sidekick, greindi frá kaupunum í morgun á HLTH-ráðstefnunni í Amsterdam, sem er ein sú stærsta innan heilbrigðistæknigeirans.

Íslenska heilbrigðistæknifyrirtækið Sidekick Health hefur fest kaup á þýska heilbrigðistæknifyrirtækinu PINK! sem hefur sérhæft sig í stuðningsmeðferðum fyrir fólk með brjóstakrabbamein. Með kaupunum breikkar Sidekick enn frekar vöruframboð sitt á sviði heilbrigðistækni.

Tryggvi Þorgeirsson, forstjóri og annar stofnenda Sidekick, greindi frá kaupunum í morgun á HLTH-ráðstefnunni í Amsterdam, sem er ein sú stærsta innan heilbrigðistæknigeirans.

PINK! hefur þróað lyfseðilsskylda heilbrigðistæknimeðferð við mildum og alvarlegum þunglyndiseinkennum hjá fólki með brjóstakrabbamein. Um er að ræða einu heilbrigðistæknimeðferðina sem hlotið hefur ótímabundið leyfi til að styðja við fólk með brjóstakrabbamein í Þýskalandi.

Læknar geta ávísað meðferð fyrirtækisins og er hún að fullu endurgreidd af þýskum sjúkratryggingum. Þá hefur PINK! fleiri vörur í þróun til að styðja við fólk með fleiri tegundir krabbameina.

„Kaupin á PINK! falla vel að stefnu okkar um að stórbæta heilbrigðisþjónustu í heiminum með því að nýta heilbrigðistæknilausnir. Með því að bæta við meðferðum PINK! og sem þau eru að þróa, aukum við verulega við þau meðferðarúrræði sem við getum boðið fólki sem er að kljást við krabbamein,“ segir Tryggvi.

„Við hlökkum til samstarfsins við Prof. Dr. Piu Wülfing, kvensjúkdómalækni og stofnanda PINK! En hún er einn fremsti sérfræðingur Þýskalands í meðferð brjóstakrabbameins. Hennar öfluga teymi hefur þróað stuðningsmeðferð til að bæta útkomur hjá konum með brjóstakrabbamein.“

Læknarnir Tryggvi Þorgeirsson og Sæmundur Oddsson stofnuðu Sidekick Health árið 2014. Fyrirtækið þróar meðferðir til þess að bæta heilsu og líðan fólks með ýmsa langvinna sjúkdóma eins og offitu, sykursýki 2, krabbamein og hjarta- og æðasjúkdóma.

Síðasta haust festi Sidekick Health kaup á þýska fyrirtækinu Aidhere GmbH sem er leiðandi í lyfseðilsskyldum heilbrigðistæknilausnum í Þýskalandi.

Fjallað verður nánar um kaup Sidekick á PINK! í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið.