Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Símans, lýsir því í nýrri ársskýrslu félagsins að hann hafi talið Símann „nokkuð staðnaðan“ fyrir fjórum árum síðan. Þó reksturinn hafi verið í stöðugu horfi, þá hafði félagið ekki tekið neinum grundvallarbreytingum um árabil.

Jón segir að á þessum tíma höfðu fjárfestar sýnt félaginu lítinn áhuga og bendir á að hlutabréfaverð Símans frá skráningu árið 2015 hafði aðeins hækkað um 15% á fjórum árum eða sem nemur um 4% á ári.

Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Símans, lýsir því í nýrri ársskýrslu félagsins að hann hafi talið Símann „nokkuð staðnaðan“ fyrir fjórum árum síðan. Þó reksturinn hafi verið í stöðugu horfi, þá hafði félagið ekki tekið neinum grundvallarbreytingum um árabil.

Jón segir að á þessum tíma höfðu fjárfestar sýnt félaginu lítinn áhuga og bendir á að hlutabréfaverð Símans frá skráningu árið 2015 hafði aðeins hækkað um 15% á fjórum árum eða sem nemur um 4% á ári.

Með nýrri sýn á áherslur í rekstri og sölu á dótturfélögum hafi tekist að skapa mikil verðmæti. Þannig hafi gengi hlutabréfa Símans nærri þrefaldast á síðustu fjórum árum og árleg ávöxtun Símans síðastliðin fjögur ár er 30%.

„Síminn er ekki lengur þunglamaleg stofnun, föst í viðjum vanans og auk þess fjötruð í regluverki sem átti rætur að rekja til sögu félagsins sem fyrrverandi ríkisfyrirtæki. Síminn í dag er létt, kvikt og nútímalegt stafrænt þjónustufyrirtæki, sem veit nákvæmlega hvar fókusinn á að vera, og hvar hann á ekki að vera,“ skrifar Jón.

Hann bendir á að heildarvirði hlutafjár Símans, að meðtöldum arðgreiðslum og endurkaupum hlutafjár, síðastliðin fjögur ár sé 97 milljarðar króna og virði félagsins hafi aukist um rúmlega 62 milljarða króna á tímabilinu.

Stærstur hluti verðmætaaukningarinnar hafi skilað sé í útgreiðslum til hluthafa „einfaldlega vegna þess að Síminn hafði ekki not fyrir þessa fjármuni. Það er því verkefni hluthafanna að ráðstafa þessum fjármunum eins og þeim hentar“.

Jón segir að árið 2022 hafi verið eitt hið viðburðaríkasta í sögu Símans, einkum þar sem félagið gekk frá sölu á Mílu „sem var endapunktur á margra ára flóknu ferli“. Þrátt fyrir umbreytingaverkefni hafi félagið svo skilað sinni bestu rekstrarafkomu á síðasta ári sem sé ekki sjálfgefið.

„Síminn er á frábærum stað í dag og í kjörstöðu til að uppfylla auknar væntingar viðskiptavina með sífellt betri vörum og þjónustu, og síðast en ekki síst, halda áfram að auka virði hluthafa.“

Orri hefur ekki áhuga á ríkisstyrkjum

Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir í ársskýrslunni að Síminn hafi undanfarin ár kosið að láta af ýmiss konar starfsemi og aukið áherslu á önnur svið, svo sem fjártækni og sjónvarp. Þá fjárfesti Síminn fyrir metfé í þjónustuinnviðum árið 2022 og vinnur áfram að breytingum á innri ferlum og kerfum.

„Kúfur þessarar fjárfestingahrinu gengur niður á þessu ári og verður að baki á því næsta. Ástæðan fyrir því að við höfum nýtt breytingaferlið til fjárfestinga er að ný geta í framtíðinni til að keppa um hylli viðskiptavinarins útheimtir fjárfestingar í dag. Frá og með þessu ári er félagið hreinræktað stafrænt þjónustufélag, sem velur sér bestu birgja á Íslandi og erlendis.“

Orri segir félagið bíða spennt eftir að njóta minnkaðrar reglubyrði í fyrsta sinn, sem fylgi sölunni á Mílu. Félagið sé minna og lipurra en áður og ekki í markaðsráðandi stöðu á neinum markaði. Síminn sé áfram meðvitaður um kostnað en leggi nú meira upp úr nýrri tekjumyndun en fyrr.

„Einu viljum við ekki breyta. Við hyggjumst ekki þiggja styrki frá skattgreiðendum. Það er eitt af mörgu sem greinir okkur frá nær öllum keppinautum okkar í fjarskiptum og fjölmiðlum.“