Heiðar Guðjónsson er að kveðja fjarskiptafyrirtækið Sýn eftir að hafa verði í lykilhlutverki hjá félaginu í áratug — lengst af sem stærsti hluthafinn, stjórnarformaður í fimm ár og forstjóri frá árinu 2019.
„Það hefur líka ýmislegt gengið á.“ Sýn gekk seint á árinu 2017 frá samningum um kaup á Tali og fjölmiðlum á borð við Vísi, Stöð 2 og Bylgjunni af 365 miðlum. „Forsenda fyrir kaupunum var að það gengi vel að sameina fyrirtækin tæknilega og fjárhagslega. Það gekk afleitlega þannig að við þurftum að ráðast í mjög miklar breytingar.“
Eftir nokkrar afkomuviðvaranir og talsverða lækkun hlutabréfaverðs Sýnar í kauphöllinni var tilkynnt um að Heiðar færi úr stóli stjórnarformanns í forstjórastólinn vorið 2019. Ráðist var í talsverða endurskipulagningu á félaginu. „Öll upplýsingakerfi og innri kerfi voru byggð upp á nýtt á grunni sem býr til skalanleika til framtíðar. Fjármálasviði félagsins var umturnað þannig að spáferli komst í gott horf auk þess sem framlegðargreining á öllum vörum félagsins var framkvæmd. Slík einföld greining er grunnur alls rekstrar, ég lærði það strax þegar ég var framkvæmdastjóri ferðafélagsins Útivistar árið 1995 að vörur sem eru vöndlaðar, gisting, fararstjórn og keyrsla, þurfa að vera vel úthugsaðar. Það sama á við með að vöndla á fjarskiptamarkaði. Þar þarf hver vara að bera framlegð, ekki er hægt að láta eina vöru niðurgreiða aðra því í samkeppni er hætt við að sölunni sjáist ekki fyrir og ímyndi sér að alltaf að hagnaðurinn myndist í aukinni veltu, en þegar eitthvað er selt á kostnaðarverði eða undir því er ljóst að tap byggist upp með slíkri veltu.“
Starfsmönnum fækkaði um fjórðung eða um 150, og millistjórnendum fækkaði um 55. Þá seldi félagið á síðasta ári það sem nefnt hefur verið óvirkir innviðir, sem Heiðar segir „í raun bara steypu og stál“ en engir tæknilegir innviðir, af 200 sendistöðvum félagsins víða um land á um sjö milljarða króna til bandarísks fjárfestingafélagsins DigitalBridge en innviðirnir eru leigðir aftur af DigitalBridge. Stöð 2 varð hrein áskriftarstöð með því að loka fréttaglugganum sem Heiðar segir að hafi haft í för með sér fjölgun viðskiptavina, sem hafi ekki verið fleiri í áratug. Stöð 2 Sport var skipt upp í innlent og erlent efni sem hafi einnig leitt til þess að áskrifendum fjölgaði um helming frá vori 2019 þegar enski boltinn var enn innan pakkans.
Viðtalið má lesa í heild í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.