Nú er svo komið að hátt í þúsund manns hafa skipt um raforkusala til dagsins í dag með hjálp fjártækni-vefsíðunnar Aurbjargar , enda býður vefsíðan upp á afar einfalda leið til þess. Tæplega 10% verðmunur er á dýrasta og ódýrasta raforkusalanum hérlendis að sögn Ólafs Arnar Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Aurbjargar , þannig að rafmagnsreikningur heimilis eða smærri fyrirtækja sem fara þessa leið getur lækkað sem því nemur.
Fáir nýtt sér möguleika á að skipta
Vefsíðunni Aurbjörg.is var hleypt af stokkunum fyrir rúmu ári með það að markmiði að auka fjármálalæsi, auka gagnsæi og aðstoða neytendur við ákvarðanir tengdar fjármálum. Í fyrstu var fólki gert kleift að bera saman íbúðarlán sem því stendur til boða hjá fjármálastofnunum og í kjölfarið var bætt við möguleikum á samanburði á skammtímalánum, krítarkortum, bílalánum o.fl., og nú seinast samanburði á raforkuverði sem fyrr segir.
Raforkunotkun íslenskra heimila að kyndingu frátalinni nam um 4,5 MWh að meðaltali árið 2014 og er meðalárskostnaður vegna raforkunotkunar og húshitunar nokkuð mismunandi eftir svæðum. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu var meðalárskostnaður vegna raforkunotkunar og húshitunar fyrir 140 fermetra einbýlishús árið 2016 lægstur um 148 þúsund krónur, en hæstur 281 þúsund krónur, en í síðarnefndu tölunni er innifalinn kostnaður við rafhitun á viðkomandi svæði.
Fólk hefur átt kost á að skipta um raforkusala allt frá árinu 2006, í samræmi við lög sem Alþingi samþykkti þremur árum fyrr um vinnslu, flutning, dreifingu og viðskipti með raforku. En þó svo að sá möguleiki hafi verið í boði í rúman áratug hafa mun færri einstaklingar nýtt sér hann hérlendis en í nágrannalöndum okkar. Inni í það kann að spila að orkufyrirtækin hafa lítt einblínt á heimilismarkaðinn og samkeppnin aðallega verið um stórnotendur.
Minni samkeppni hér en ytra
„Ég verð að viðurkenna að það var ekki fyrr en í sumar sem ég komst að því að heimili gæti skipt um raforkusala, sem kom mér ánægjulega á óvart og miðað við það sem ég heyri í kringum mig vita furðu fáir af þessum möguleika,“ segir Ólafur Örn. „Ég fór þá að velta fyrir hvort og hvernig Aurbjörg gæti tekið á raforkuþættinum í samanburði sínum á ýmsum kostnaði heimilanna. Í maí rakst ég síðan á frétt um ársfund Landsvirkjunar, þar sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, nefnir að augljóslega sé samkeppni á smásölumarkaði mun minni hér á landi en í nágrannalöndunum. Hann nefndi í því sambandi að um 0,5-1% prósent skipta um smásöluaðila á Íslandi á ári, en á Norðurlöndunum liggja þessar tölur í kringum 10%. Þá ákváðum við að víkka út enn frekar hvað Aurbjörg hefur upp á að bjóða og hafa á boðstólum upplýsingar um þennan valkost, spurningar og svör og samanburð á verðlagningu.”
Frá því að Aurbjörg.is setti á stofn sérstaka upplýsingasíðu og samanburð á raforkusölum hafa rúmlega sjö manns á dag að meðaltali óskað eftir að skipta um raforkusala í gegnum vefsíðuna. „Það var tiltölulega einfalt að safna þessum upplýsingum saman og stilla þeim upp. Þær liggja fyrir á heimasíðum raforkusalanna en vitaskuld ekki með samanburði við verðskrár samkeppnisaðila, ekki fyrr en núna á Aurbjörgu ,“ segir Ólafur Örn.
„Ég er sannfærður um að aðgengið að upplýsingum með þessum samanþjappaða hætti á Aurbjörgu hafi gert marga meðvitaðri um að hægt sé að velja sér raforkusala eins og þessar tölur sýna, þ.e. að aukning á söluaðilaskipta einstaklinga á raforku nemi ríflega 700% síðustu 3 mánuði ef borið er saman við tölur Netorku frá því í fyrra. Þetta er gríðarmikil aukning sem þýðir að mínu viti að nær enginn var að spá í þessu áður. Til að hægt sé að skipta yfir til ákveðins raforkusala á vefsíðunni þurfum við að forrita á móti vefþjónustu viðkomandi raforkusala, og við rukkum fyrir þá þjónustu en höfum engan hag af því hvort fólk skiptir um raforkusala í gegnum Aurbjörgu eða á annan hátt eða hvern það velur. Við viljum einfaldlega að neytandinn sé upplýstur á sem bestan hátt og tryggja óháðan samanburð.“
Hvatning til að lækka verðið
„Ódýrustu raforkusalarnir hafa vitanlega mestan hag af þessari þjónustu, en kannski er þetta um leið hvatning fyrir þá sem dýrari eru að bjóða upp á önnur kjör,” segir Ólafur Örn. „Mesta gagnið hafa þó neytendur af þessum samanburði og auðvelda val á milli orkusala, og mestu skiptir auðvitað að þeir séu virkir og meðvitaðir neytendur sem veita fyrirtækjum aðhald á samkeppnismarkaði. Það gæti leitt til þess að heildarverðið á raforku lækki í smásölu. Við erum ekki að tala um að fólk spari sé stórfé en fólki munar um hverja krónu og áhrif þessa hreyfanleika á milli fyrirtækja geta verið talsverð þegar fram líða stundir, sérstaklega ef fólk nýtir sér þennan valkost í miklum mæli.“
Ólafur Örn segir að ekki standi til á þessari stundu hjá Aurbjörgu að þróa orkuhluta þjónustu vefsíðunnar lengra, en hins vegar megi vænta á allra næstu mánuðum nýjunga sem tengjast fjármálum heimila.
Sjö fyrirtæki á markaðnum
Rafmagnskostnaður skiptist í tvennt, í raforkusölu og raforkudreifingu. Raforkusala er á samkeppnismarkaði en neytendur geta ekki valið dreifiaðila heldur er dreifing rafmagns bundin viðkomandi svæði.
Á raforkusölumarkaðnum starfa sjö fyrirtæki: Fallorka, HS Orka, Orka heimilanna, Orka náttúrunnar, Orkubú Vestfjarða, Orkusalan og Rafveita Reyðarfjarðar. Samkvæmt upplýsingum á Aurbjörgu er Orka heimilanna með lægsta verðið, 5,89 krónur á kWst , en dýrasti orkusalinn er Orka náttúrunnar, með 6,43 krónur á kWst án virðisaukaskatts.
Fjallað er um málið í Orku & iðnaði, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .