Sjötta Airbus þota flugfélagsins Play er komin til landsins. Þotan er af gerðinni Airbus A320neo og ber skráningarnúmerið TF-PPD. Hún kom til landsins frá Frakklandi þar sem hún var máluð í einkennislitum Play og aðlöguð að þörfum félagsins. Þotan verður tekin inn í leiðakerfi félagsins eftir helgi. Þetta kemur fram í tilkynningu Play.
Fyrir er Play með þrjár Airbus A321neo og tvær Airbus A320neo í rekstri en þær eru notaðar til að fljúga á þá 25 áfangastaði sem flugfélagið býður upp á í ár í Bandaríkjunum og Evrópu.
„Bókunarstaða félagsins er sterk og sætanýting hækkar nú jafnt og þétt. Play flutti hátt í 100 þúsund farþega í júní mánuði einum saman en miðað við bókunarstöðu má búast við að sú tala verði hærri í júlí,“ segir í tilkynningunni.