Alls var keyptur húsbúnaður inn í ný húsakynni Skattsins fyrir rúmlega 220 milljónir króna. Þetta kemur fram í svar Skattsins við fyrirspurn Viðskiptablaðsins en Skatturinn mun innan skamms flytja höfuðstöðvar sínar í Katrínartún 6, sem hefur verið nefnt Hús íslenskra fjármála. Leysir húsnæðið af hólmi gamlar höfuðstöðvar ríkisskattstjóra, tollstjóra og skattrannsóknarstjóra. Tvær fyrrnefndu stofnanirnar sameinuðust í upphafi árs 2020 og fyrir rúmum tveimur árum bættist sú síðastnefnda í hópinn.

Í svarinu kemur fram að sex útboð hafi farið fram á innanstokksmunum og gengið hafi verið til samninga við Á. Guðmundsson, Hirzluna, Pennann og Sýrusson. „Hafa ber í huga að vegna þessara flutninga sem fyrirhugaðir hafa verið um nokkurt skeið hefur viðhald og kaup á innanstokksmunum setið á hakanum en gert er ráð fyrir að Skatturinn verði til húsa í Húsi íslenskra ríkisfjármála næstu 30 árin, hið minnsta, og þykir mikilvægt að miða kaup á húsbúnaði á þessum tímapunkti með það fyrir augum.“

Viðskiptamoggin greindi fyrst frá. Í svari Skattsins kemur fram að stór og mikilvægur liður í sameiningarvinnunni sem staðið hafi yfir sé að sameina starfsstöðvarnar þrjár á höfuðborgarsvæðinu undir einu þaki, „starfsemi og skilvirkni til heilla“. Auk Skattsins mun Fjársýslan vera til húsa í Katrínartúni 6.

Í nýjum höfuðstöðvum munu alls 370 starfsmenn Skattsins starfa. Byggingin er um 11.705 fermetrar og mun Skatturinn hafa yfir að ráða 9.705 fermetra og Fjársýslan 2.000 fermetra.

„Þar sem mjög svo aukin áhersla hefur verið lögð á opin vinnurými í Húsi íslenskra ríkisfjármála tóku innkaup á innanstokksmunum mið af því nýja landslagi. Þannig er gert ráð fyrir færri fermetrum á hvern starfsmann og því var nauðsynlegt að ráðast í kaup á smærri skrifborðum, skilrúmum og öðrum slíkum búnaði sem rúmast betur inn slíkar aðstæður í hinu nýja húsnæði. Tilkoma næðisrýma og fjölgun fundarherbergja var einnig nýr og afleiddur þáttur hins nýja skipulags sem þurfti að huga að við slík innkaup,“ segir í svari Skattsins.