Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur ákveðið að ógilda kaup Skeljungs á Búvís ehf., sem hefur aðsetur á Akureyri. Kaupsamningur um kaup Skeljungs, dótturfélags Styrkáss sem er í 63% eigu Skeljar fjárfestingarfélags, á Búvís var undirritaður í ágúst síðastliðnum.
Í tilkynningu á vef SKE segist eftirlitið telja óhjákvæmilegt að ógilda samrunann. Rannsókn þess hafi leitt í ljós að Búvís sé mikilvægur keppinautur á markaði fyrir innflutning og sölu á áburði og að samruninn hefði „að öllu óbreyttu haft umtalsverð skaðleg áhrif á þeim markaði“.
„Ef yfirtaka Skeljungs á Búvís hefði náð fram að ganga hefði burðugum keppinautum fækkað úr fjórum í þrjá. Veruleg samþjöppun hefði orðið á fákeppnismarkaði umfram það sem ásættanlegt er samkvæmt viðurkenndum viðmiðum samkeppnisréttar,“ segir í tilkynningu SKE.
„Þessu til viðbótar hefði fækkun keppinauta á fákeppnismarkaði málsins þær afleiðingar að aðstæður hefðu orðið mun hentugri til samhæfingar, svo sem við verðákvörðun, bændum og neytendum til tjóns.“
SKE segir jafnframt að samrunaaðilar hafi ekki lagt fram fullnægjandi upplýsingar, gögn eða skýringar, þess efnis að samruninn hafi í för með sér hagræðingu eða efnahagslegar framfarir sem mótvægi við skaðleg áhrif samrunans. Þá hafi samrunaaðilar hvorki óskað eftir sáttaviðræðum né lagt fram tillögur að mögulegum skilyrðum.
Búvís hafi breytt samkeppnisaðstæðum til hins betra
Búvís var stofnað í janúar 2006 af bræðrunum Einari Guðmundssyni og Gunnari Guðmundarsyni sem hafa átt og rekið félagið frá upphafi. Félagið sérhæfir sig í sölu og þjónustu búvéla og rekstrarvara til bænda svo sem áburði, rúlluplasti og rúlluneti.
Samkeppniseftirlitið segir gögn málsins sýna að Búvís hafi verið stofnað sem andsvar við verulegum verðhækkunum á áburði og skorti á samkeppni.
„Umsagnir bænda, sem aflað var í málinu, sýna einnig að Búvís hafi breytt samkeppnisaðstæðum til hins betra, haldið verðum niðri og bætt þjónustu og viðskiptakjör til bænda. Hætta er á því að aðstæður á markaði færu í fyrra horf hefði orðið af samrunanum.“
SKE segir áburð vera mikilvægt aðfang í landbúnaði og stóran kostnaðarliður hjá bændum. Fyrri rannsóknir eftirlitsins gefi til kynna að samningsstaða bænda gagnvart aðilum sem sjá þeim fyrir þjónustu og aðföngum sé veik, auk þess sem fjárhagsstaða bænda er að jafnaði erfið.