Samkeppniseftirlitið hefur beint þeim tilmælum til heilbrigðisráðherra og Sjúkratrygginga Íslands að grípa til aðgerða til að stuðla að bættri samkeppni í myndgreiningum utan sjúkrahúsa með því að greiða innkomu nýrra aðila inn á markaðinn.

Álit eftirlitsins var birt á dögunum en tilefnið var kvörtun Intuens Segulómunar frá því í desember 2023 þar sem fyrirtækinu hafði verið synjað um samning um greiðsluþátttöku hjá SÍ.

Samkeppniseftirlitið telur að stjórnvöld hafi ekki sýnt fram á málefnalegar ástæður fyrir því að hafna slíkum samningi á sama tíma og eldri samningar gagnvart starfandi fyrirtækjum höfðu verið framlengdir.

Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að Intuens geti notið tímabundins samnings um greiðsluþátttöku þar til niðurstöður fyrirhugaðs útboðs - sem samkvæmt SÍ verður auglýst í ágúst nk. og nýir samningar eiga að taka gildi 1. janúar 2025 - eða fyrirkomulags um innkaup eða greiðsluþátttöku SÍ liggur endanlega fyrir.

Þegar í stað skuli tryggt að Intuens njóti jafnræðis gagnvart öðrum fyrirtækjum á markaðnum. Með virkari samkeppni sé stuðlað að því að notendur fái betri þjónustu á sem hagstæðustu verði, til hagsbóta fyrir almenning og ríkissjóð.

Í biðstöðu til lengri tíma

Viðskiptablaðið greindi frá því í nóvember sl. að Intuens hafði opnað rannsóknarstöð sem bauð m.a. upp á segulómun fyrir allan líkamann. Fyrirtækið hafði þá verið í sambandi við heilbrigðisyfirvöld frá því á vormánuðum.

Í kjölfar gagnrýni ákveðinna aðila fór embætti landlæknis fram á það við heilbrigðisráðuneytið að starfsemi fyrirtækisins yrði stöðvuð. Ráðuneytið komst aftur á móti að þeirri niðurstöðu í desember 2023 að ekki væru forsendur til að stöðva reksturinn. Fyrirtækið hafði þá gert ýmsar breytingar og bauð ekki lengur upp á heilskimanir.

Í tilkynningu frá Intuens segir að segulómtæki þeirra, sem er afkastamesta tæki landsins, hafi staðið ónotað þar sem sjúklingum sem þurfa á myndgreiningu að halda hefur ekki gefist kostur á að nýta sér tækið þar sem SÍ hafði ekki tekið afstöðu til umsóknar um greiðsluþátttöku.

Í örum vexti en fáir aðilar

Þrjú fyrirtæki eru starfandi á markaði til myndgreiningar í dag, þar af tvö sem eru með verulega háa markaðshlutdeild en um er að ræða Læknisfræðilega myndgreiningu ehf. og Íslenska myndgreiningu ehf. Samkeppniseftirlitið ógilti samruna umræddra félaga haustið 2020 en hlutdeild sameinaðs dyrirtækis hefði orðið 90-95%.

Í tilkynningu um ákvörðunina að þessu sinni er vísað til þess að það hafi mikla þýðingu að markaðurinn hafi verið í örum vexti undanfarin ár en keppinautum ekki fjölgað á sama tíma.

Á sama tíma hafi heilbrigðisyfirvöld bent á að þjónusta núverandi fyrirtækja sé kostnaðarsöm og sum hver skilað eigendum sínum miklum arði. Það ætti því að vera keppikefli yfirvalda að greiða götu nýrra keppinauta og efla samkeppni til að ná fram hagstæðasta verði og betri þjónustu.

SKE gefur þá lítið fyrir fullyrðingar SÍ um að ekki sé þörf á fleiri aðilum inn á markaðinn og bendir á að samþjöppunin sé mjög mikil að svo stöddu. Þá hafi tilvísunum til myndgreininga t.a.m. fjölgað um 80% frá árinu 2017 en þá voru jafn mörg fyrirtæki starfandi.

„Að mati Samkeppniseftirlitsins er alvarleg hætta á því að ef Intuens verði ekki veitt tækifæri til að komast inn á markaðinn geti það haft í för með sér veruleg neikvæð samkeppnisleg áhrif. Til þess gæti komið að fyrirtækinu verði nauðugur einn sá kostur að selja segulómtækið frá sér, mögulega úr landi eða til þeirra fyrirtækja sem þegar eru starfandi á markaðnum. Hefur Intuens lýst því yfir nýlega að þetta sé í raun eini kosturinn í stöðunni.

Með þeirri niðurstöðu yrðu stjórnvöld af tækifæri til þess að virkja samkeppni með það að markmiði að bæta þjónustu og búa í haginn fyrir hagstæðari verðlagningu í tengslum við kaup þessarar þjónustu til framtíðar. Þannig væri þessi niðurstaða jafnframt til þess fallin að letja aðra aðila í framtíðinni til að reyna innkomu á markaðinn og hasla sér þar völl,“ segir í áliti SKE.