Skemmdarverk voru unnin um síðustu helgi á einni af De Havilland Dash 8 flugvélum Icelandair sem notaðar eru í innanlandsflugi. Einstaklingur mun hafa klifrað yfir girðinguna á Reykjavíkurflugvelli og krotað (e. „taggað“) með spreybrúsa á skrokk vélarinnar og á tvo af gluggum hennar.
Engin tilkynning var gefin út vegna málsins þegar atvikið átti sér stað og könnuðust hvorki upplýsingafulltrúar Icelandair né Isavia við málið þegar Viðskiptablaðið hafði fyrst samband við þá.
Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, staðfesti síðar meir við Viðskiptablaðið að atvikið hafi átt sér stað og að málið væri komið inn á borð til lögreglu. "Við förum yfir okkar verkferla, en rétt er að taka fram að völlurinn er með sólarhringsvakt og það eru farnar vaktarferðir um svæðið."
Fyrirspurn hefur verið send til lögreglu en engin svör hafa hingað til borist í tengslum við málið.
Blaðamaður fékk einnig þær upplýsingar frá nokkrum sem þekkja til flugvallarstarfsemi á Íslandi þegar spurt var út í öryggisgæslu á Reykjavíkurflugvelli að ekki séu í gildi sömu öryggisreglur á Reykjavíkurflugvelli og á Keflavíkurflugvelli.
Til að mynda sé engin öryggisleit í innanlandsflugi og að öryggisgæsla á flugvellinum almennt sé mun minni. Millilandaflug fer hins vegar fram á Reykjavíkurflugvelli, á Akureyri og á Egilsstöðum og gilda þá sömu reglur varðandi öryggisleit og á Keflavíkurflugvelli.
Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í samtali við Viðskiptablaðið að auðveldlega hafi gengið að fjarlægja málninguna og að vélin hafi fljótlega verið tekin í notkun á ný. "Vélin var yfirfarin samkvæmt verklagi þegar þetta kom í ljós og að lokinni skoðun var málningin hreinsuð af."
Uppfært kl. 14:43 : Fréttin var uppfærð eftir að svör bárust frá bæði upplýsingafulltrúum Icelandair og Isavia.