Íbúðaverð á Nýja-Sjálandi lækkaði um 2,9% á ársgrundvelli í nóvember. Þetta er mesta árslækkun á íbúðaverði í landinu síðan í júlí 2009, að því er kemur fram í grein hjá Bloomberg.

Íbúðaverð lækkaði um 0,6% á milli mánaða, en það hefur lækkað átta mánuði í röð. Í Wellington, höfuðborg Nýja-Sjálands, hefur íbúðaverð lækkað um tæplega 16% á milli ára.

Miklar stýrivaxtahækkanir seðlabankans á skömmum tíma hafa gert það að verkum að eftirspurn eftir húsnæði hefur dregist verulega saman.

Þá spá hagfræðingar því að íbúðaverð í landinu muni lækka um meira en 20% frá því að það náði hámarki síðla árs 2021.