Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir félagið nú standa frammi fyrir breyttri heimsmynd sem felist í því að það þurfi að forgangsraða áherslum í orkusölu til næstu ára, enda sé eftirspurn eftir raforku meiri en framboðið. Vegna þess muni fyrirtækið hvorki leggja áherslu á að fá nýja stórnotendur í málmiðnaði eða hrávöruvinnslu í viðskipti né heldur leggja áherslu á útflutning orku. Þess í stað verði megináhersla lögð á að anna eftirspurn eftir raforku til aukinnar almennrar notkunar í samfélaginu og til innlendra orkuskipta, til að styðja við aukna stafræna vegferð og nýsköpun og til að styðja við framþróun núverandi stórnotenda. Í fyrsta skipti í sögu Landsvirkjunar þurfi að segja nei við fjölmörgum góðum verkefnum. Orkan sé einfaldlega ekki til.
„Þetta er ný staða fyrir okkur. Þó að hún sé krefjandi er hún einnig góð þar sem þetta gefur til kynna að eftirspurnin eftir grænni endurnýjanlegri orku sé veruleg og sífellt að aukast. Ég held að það sé alveg sama hvað við bættum við mikið af nýjum virkjunum, eftirspurnin yrði alltaf meiri en framboð orkunnar sem við næðum að framleiða. Við erum að selja græna endurnýjanlega orku á samkeppnishæfu verði, sérstaklega eftir að raforkuverð tók að hækka verulega víða erlendis. Raforkuverð sem við bjóðum upp á er sambærilegt raforkuverði á þeim markaðssvæðum sem við berum okkur saman við, sem eru meðal annars Norður-Noregur og Kanada. Við erum að fá fín verð fyrir orkuna okkar sem skilar Landsvirkjun góðri afkomu.“
Aðspurður segir Hörður erfitt að leggja mat á fjárhagslegt umfang tækifæranna sem glatast vegna þess að ekki sé til orka til nýrra verkefna. Það sé þó ljóst að umrædd verkefni myndu afla Landsvirkjun töluverðra tekna ef af þeim yrði.
Nánar er rætt við Hörð í sérblaðinu Viðskiptaþing - Er framtíðin orkulaus eða orkulausnir. Viðskiptaþingið, sem er á vegum Viðskiptaráðs, hefst kl. 13 í dag.