Viðskiptablaðið fjallaði í vikunni ítarlega um áformaða tugmilljarða króna fjárfestingu Verne Global í gagnaveri sínu á Ásbrú í Reykjanesbæ. Breska móðurfélagið Digital 9 Infrastructure, sem keypti Verne Global árið 2021, hefur hafið söluferli á minnihluta í gagnaversfyrirtækinu.
D9 hyggst nýta söluandvirðið annars vegar til að fjármagna hluta af fjárfestingarútgjöldum Verne Global og hins vegar til að greiða niður veltilán samstæðunnar. Fjárfestingarfélagið, sem skráð í kauphöllina í London, gerir ráð fyrir að greina nánar frá söluáformunum á þriðja ársfjórðungi.
Fjárfestingarstefna D9 inniheldur ákvæði um að samstæðan skuli ekki fjárfesta fyrir meira en 25% af brúttóvirði eignasafnsins í einu félagi. Fyrir vikið segist fjárfestingarfélagið ekki geta aukið vægi Verne Global í eignasafninu að svo stöddu.
Tæki fagnandi á móti íslenskum fjárfestum
Dominic Ward, forstjóri Verne Global, segir að fyrirhuguð sala sé fylgifiskur þess að fyrirtækið hafi vaxið umfram áætlanir. Fyrir vikið horfi samstæðan nú til þess að fá aðra fjárfesta til liðs við sig til að styðja við og hraða uppbyggingu Verne Global.
Spurður hvort horft sé til þess að ræða við íslenska fjárfesta, þá svarar Ward að það yrði frábært að fá Íslendinga aftur að borðinu en samstarf við fyrri íslenska hluthafa, Stefni og Novator, hafi gengið vel. Söluferlið sé þó enn á fyrstu stigum og möguleg aðkoma Íslendinga velti á framvindunni.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.