Fjármagn streymdi inn í hlutabréfasjóði í október síðastliðnum. Alls námu kaup á hlutdeildarskírteinum tæplega 1,9 milljörðum króna, en innlausn hlutdeildarskírteina 1,1 milljarði króna.

Því nam hreint innflæði í hlutabréfasjóði 838 milljónum króna í október. Um viðsnúning er að ræða því átta mánuði á undan nam hreint útflæði samtals 4,2 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í tölum Seðlabankans, um eignir verðbréfa- og fjárfestingasjóða, sem birtar voru í þar síðustu viku.

Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða, bendir á að útflæði hafi ekki verið mikið úr hlutabréfasjóðum Íslandssjóða, þrátt fyrir að ávöxtunin hefði á tímabili gefið eftir, í takt við þróun á markaði.

„Nú sjáum við að hlutabréfavísitölur eru að hækka um 20% frá áramótum og því borgaði það sig fyrir fólk að bíða.“

Hann bætir við að það sé augljóst að mikið fjármagn muni leita á hlutabréfamarkaðinn á komandi misserum.

„Almennt séð hafa uppgjörin verið sterk, þó með einhverjum undantekningum, og kauphallarfélögin eru sanngjarnt verðlögð miðað við verðmöt sem gerð hafa verið. Þar að auki er talsvert af fjármagni á leiðinni á markaðinn, þar á meðal vegna kaupa JBT á Marel og stórra arðgreiðslna sem væntanlegar eru á markaðinn.“

Sparifjáreigendur hafi kveikt á perunni

Kjartan segir spennandi tíma fram undan í Kauphöllinni, bæði á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði.

„Greinendur spá því að bæði hlutabréfa- og skuldabréfamarkaðir eigi talsverðar hækkanir inni, og það er ánægjulegt að sjá að stór hluti sparifjáreigenda virðist hafa kveikt á perunni á góðum tíma og er að fara inn á markaðinn nú þegar beygjuskilin eru að eiga sér stað, en ekki þegar allt er búið að hækka um 40-50%.

Vextir munu halda áfram að lækka, þó að það muni eflaust taka sinn tíma. Vaxtalækkunarferlið styður við hlutabréfamarkaðinn og þá er líka gott að eiga skuldabréf, nú þegar vextir eru á niðurleið, sem bera almennt minni áhættu en hlutabréf.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.