Afkoma Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis á síðasta ári var mjög góð og náði sögulegu hámarki. Hagnaður af rekstri SPRON samstæðunnar fyrir skatta nam 1.820 millj. kr. samanborið við 846 millj. kr. áður.

Hagnaður eftir skatta var 1.465 millj. kr. og arðsemi eigin fjár var 32%. Hreinar rekstrartekjur SPRON jukust um 32% á milli ára og námu um 5 milljörðum króna. Rekstrarkostnaðarhlutfall án afskriftar viðskiptavildar og framlags í Menningar- og styrktarsjóð SPRON var 50% á árinu 2004, samanborið við 55% árið á undan. Framlag í afskriftareikning útlána lækkaði um 30% frá fyrra ári og nam alls 470 millj. kr. árið 2004. Vaxtamunur sparisjóðsins er 3,8% og er óbreyttur á milli ára. Útlán SPRON samstæðunnar námu í árslok tæpum 50 milljörðum króna, sem er um 33% aukning frá árinu á undan. Heildarinnlán jukust um 18% og sem hlutfall af útlánum námu þau í árslok 71%. Eigið fé sparisjóðsins jókst árið 2004 um ríflega 29% og var í lok ársins 5.947 millj. kr. Eiginfjárhlutfall (CAD) var 10,4%.

· Hagnaður eftir skatta nam 1.465 millj. kr. sem er 82% aukning frá árinu áður.

· Arðsemi eigin fjár var 32%.

· Hreinar rekstrartekjur 2004 námu alls 5.007 millj. kr. sem er um 32% aukning frá fyrra ári.

· Kostnaðarhlutfall án afskriftar viðskiptavildar og framlags í Menningar- og styrktarsjóð SPRON var 50,3% samanborið við 55% árið á undan.

· Eigið fé í lok tímabilsins nam 5.947 millj. kr. og hefur hækkað um 1.349 millj. kr. frá árslokum 2003 eða 29%.

· Eiginfjárhlutfall (CAD) SPRON samstæðunnar 2004 var 10,4%. Eiginfjárþáttur A er 12,3%. Lágmarkshlutfall samkvæmt lögum er 8,0%.

· Niðurstaða efnahagsreiknings var 68.749 millj. kr. og hefur aukist um 32,5% frá árslokum 2003.

· Heildarinnlán SPRON í lok tímabilsins námu alls 35.523 millj. kr. og hækkuðu um samtals 5.343 millj. kr. eða 18% og sem hlutfall af útlánum námu þau í árslok 71%.

· Heildarútlán SPRON námu 49.850 millj. kr. í árslok 2004 og hækkuðu um 33% á árinu.

· Stjórn SPRON mun á aðalfundi sparisjóðsins 2005 leggja fram tillögu um að greiddur verði 25,5% arður til stofnfjáreigenda vegna ársins 2004. Auk endurmats m.v. vísitölu mun stjórn sparisjóðsins leggja til að nýtt verði heimild í lögum um sérstakt endurmat stofnfjár og það hækkað um 5,0%.

?Afkoma SPRON á árinu 2004 er sú besta í sögu sjóðsins.", segir Guðmundur Hauksson sparisjóðsstjóri SPRON. ?Starfsemi SPRON hefur styrkst mikið undanfarin ár og er eigið fé nú að nálgast 6 milljarða króna. Útlán hafa hækkað um 33% og innlán um 18% frá árslokum 2003. Vanskilahlutfall SPRON er nú mun lægra en síðustu ár, þannig að þróun mála hefur verið SPRON einkar hagstæð. Fjárfestingar sparisjóðsins í hlutabréfum eru þó sá liður sem mestri ávöxtun skilar. Hlutabréfaverð hefur hækkað mikið og fjárfestingar SPRON á þessu sviði hafa skilað frábærum árangri. Rekstur dótturfélaganna Frjálsa fjárfestingarbankans og nb.is-sparisjóðs hefur einnig gengið mjög vel og er hagnaður þeirra umfram áætlanir félaganna."

Á árinu 2004 var vöruframboð sparisjóðsins eflt enn frekar. Góð viðbrögð voru við Fjölskylduþjónustunni sem kynnt var í sumarbyrjun. Nýtt e-kort kom fram á sjónarsviðið, boðið var upp á greiðsluþjónustu fyrir fyrirtæki, ásamt því að boðið var upp á hagstæð íbúðalán. SPRON fór ásamt öðrum sparisjóðum í samstarf við Íbúðalánasjóð varðandi fjármögnun á íbúðalánum. Í heild má segja að rekstur SPRON sé í miklum blóma og eru allar forsendur til að árið 2005 verði afar farsælt.