Hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands (SS) á fyrri helmingi árs var 437 milljónir króna. Á sama tímabili árið áður nam hagnaður 129 milljónum króna. Rekstrartekjur voru 8,2 milljarðar króna á fyrri árshelmingi ársins, en 6,6 milljarðar króna á sama tíma árið áður og hækka því um tæp 26%. Aðrar tekjur voru 43 milljónir króna en voru 49 milljónir króna árið áður. Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu félagsins.
Hagnaður fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir (EBITDA) var 958 milljónir króna en var 539 milljónir króna á sama tíma í fyrra. Eigið fé SS var 5,8 milljarðar króna í lok júní.
Vöru- og umbúðanotkun var 4,5 milljarðar króna en 3,5 milljarðar króna árið áður. Launakostnaður var 1,8 milljarðar króna og hækkaði um tæp 8%, annar rekstrarkostnaður var 1,1 milljarður króna og hækkaði um tæp 15%. Afskriftir voru 240 milljónir króna, sem er svipað og á síðasta ári.
Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 181 milljón króna, en voru 143 milljónir króna, á sama tímabili í fyrra. Veltufé frá rekstri án vaxta og skatta var 951 milljón króna á fyrri árshelmingi ársins 2022, samanborið við 523 milljónir króna fyrir sama tímabil árið 2021.
Heildareignir SS í lok fyrri helmings árs voru 11,3 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall 51% en 48% árið áður. Veltufjárhlutfall var 2,4 á fyrri hluta ársins 2022, en 2,2 árið áður.