Frá áramótum hefur gull hækkað um 33% í verði. Verð á únsu af gulli fór í gær í fyrsta skiptið yfir 3.500 dollara en um síðustu áramót kostaði únsan um 2.650 dollara. Á síðustu tólf mánuðum hefur gull hækkað um 40% í verði. Ástæða hækkunarinnar er að fjárfestar hafa leitað í örugga fjárfestingakosti vegna óvissunnar, sem ríkir í heimshagkerfinu vegna efnahagsstefnu Bandaríkjanna.
Seðlabanki Íslands á nokkuð af gulli, sem geymt er í London, nánar tiltekið í Englandsbanka (e. Bank of England). Íslenska gullið hefur verið geymt í London svo áratugum skiptir en ekki er óalgengt að seðlabankar geymi gullforða sinn, eða hluta hans, í erlendum fjárgeymslum.
2,6% af gjaldeyrisforðanum
Um síðustu áramót nami virði íslenska gullforðans ríflega 23,1 milljarði króna en í dag er virði forðans komið í ríflega 30,5 milljarða. Virði gullforðans hefur því hækkað um 7,4 milljarða króna á tæpum fjórum mánuðum.
Í gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands eru erlendar eignir Seðlabankans í erlendum gjaldmiðlum, eins og innstæður í erlendum bönkum, skuldabréf, sérstök dráttarréttindi og inneign hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, gull og aðrar erlendar eignir. Samkvæmt ársskýrslu Seðlabankans fyrir árið 2024 nam gjaldeyrisforðinn um 886 milljörðum króna um síðustu áramót og var gull um 2,6% af gjaldeyrisforðanum. Í skýrslunni kemur jafnframt fram að bankinn hafi ekki bætt við gullforðann á síðasta ári. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands þá hefur bankinn ekki keypt neitt gull það sem af er árinu.

© EPA (EPA)
Trump vökvar gullregnið
Verð á gulli er nú í hæstu hæðum og er ástæðan fyrst og síðast óvissan, sem ríkir í efnahagsmálum Bandaríkjanna.
Tollastríð Bandaríkjanna hefur haft mikil áhrif á markaði víðsvegar um heim, jafnvel þó Bandaríkjastjórn hafi um miðjan apríl tilkynnt um 90 daga frestun gegn flestum ríkjum nema Kína. Hörð gagnrýni Donalds Trump á Jerome Powell seðlabankastjóra Bandaríkjanna hefur einnig haft mikil áhrif á markaði.
Í færslu á samfélagsmiðlinum Truth Social hvatti Trump Powell til að lækka vexti strax. Ummælin lét Trump falla í kjölfar þess að Powell hafði nýverið varað við því að fyrirhuguð tollastefna ríkisstjórnarinnar gæti leitt til minni hagvaxtar og aukinnar verðbólgu. Þess má geta að það var Trump sem skipaði Powell í stöðu seðlabankastjóra árið 2017.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.