Strætó og Blindrafélagið undirrituðu í dag samstarfssamning sín á milli um uppsetningu NaviLens kóða á öllum biðstöðvum og vögnum Strætó á höfuðborgarsvæðinu. NaviLens kóðar virka á svipaðan hátt og QR kóðar en hægt að greina þá úr 12 sinnum meiri fjarlægð en QR kóða.
Í tilkynningu frá Strætó segir að um sé að ræða stærstu breytingu í áratug síðan hljóðkerfi var sett upp í vögnunum.
„Þetta er í fyrsta skipti hérlendis sem upplýsingar í almenningssamgöngum í umhverfismerkingum eru aðgengilegar þeim sem ekki geta lesið þær,“ segir Hlynur Þór Agnarsson, ráðgjafi frá Blindrafélaginu.

Strætó mun leiða verkefnið og verða kóðarnir á ábyrgð og í eigu Strætó en félags- og vinnumarkaðsráðherra og innviðaráðherra skrifuðu í byrjun árs undir samning við Blindrafélagið vegna samstarfsverkefnis félagsins og Strætó um innleiðingu á kóðunum og veittu til þess styrk 2.000.000 kr. hvor.
Í tilkynningu segir jafnframt að NaviLens þýði upplýsingarnar sjálfvirkt á yfir 33 mismunandi tungumál og geti þannig nýst ferðamönnum og þeim sem eru ekki með íslensku sem fyrsta tungumál.