Eigendur Samsung síma og aðrir sem styðjast við Android stýrikerfi geta nú loks nýtt sér Wallet lausnina hér á landi, eftir að tæknirisinn Google opnaði fyrir notkun þess hér á landi á dögunum. Rúmlega þrjú ár eru síðan einn helsti samkeppnisaðili Google, Apple, opnaði fyrir Apple Pay, sem er sambærileg lausn, á Íslandi. Yngvi Tómasson, stofnandi og framkvæmdastjóri Leikbreytis, segir að innkoma Google Wallet muni líklegast hraða enn frekar þeirri þróun að hefðbundin kortaveski með plastkortum víki fyrir stafrænum kortaveskjum. Leikbreytir hefur undanfarna mánuði einblínt á útgáfu gjafakorta og inneignarnóta fyrir stafræn veski á borð við Google Wallet og Apple Pay.
„Notendur síma með Android stýrikerfi hafa vissulega haft möguleika á að setja upp annars konar farsímaveski í símana sína en þrátt fyrir það finn ég strax að innkoma Google Wallet er að vekja mikla athygli og áhuga. Google Wallet er þegar innbyggt í alla Android síma svo notendur þurfa ekki að sækja enn eitt smáforritið til að færa stafræn kort í símann sinn. Það kæmi mér því ekkert á óvart ef fyrirtæki og stofnanir myndu í kjölfarið færa bensínlykla, starfsmannakort, gjafakort, vildarkort, sundkort og í raun öll þessi kort sem fólk er með í kortaveskinu sínu yfir í farsímaveski.“
Stóru verslunarkeðjurnar sýnt mikinn áhuga
Leikbreytir sérhæfir sig í að þjónusta fyrirtæki sem vilja nýta sér stafrænar lausnir sem í boði eru til aukinnar skilvirkni í rekstri. Meðal lausna sem fyrirtækið veitir eru netspjall, snjallmenni, sjálfvirknivæðing ýmissa endurtekinna verkefna, vefverslanir og farsímaveski. Undanfarna mánuði hefur fyrirtækið einblínt á það síðastnefnda. S4S samstæðan er eitt af þeim fyrirtækjum sem hefur nýtt sér farsímaveskilausnina fyrir gjafakort og inneignarkort. Yngvi segir að þessi lausn hafi vakið mikla athygli innan verslunargeirans. Umrædd lausn var gefin út fyrir tæplega ári síðan og að sögn Yngva hafa í kjölfarið flestar stærstu verslunarkeðjur landsins annað hvort komið í viðskipti við Leikbreyti eða sýnt því áhuga.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.