Hópur af starfsfólki hjá Apple hefur hafið undirskriftarsöfnun um sveigjanlegra vinnuumhverfi. Apple hefur nýlega sagt starfsfólki sínu að það þurfi að mæta á skrifstofuna að minnsta kosti þrisvar sinnum í viku, en í faraldrinum var starfsfólki Apple heimilt að vinna heima eins og þeim hentaði. Þetta kemur fram í grein á Wall Street Journal.
Í undirskriftarsöfnuninni biður starfsmannahópurinn um að fá að ráðstafa vinnufyrirkomulagi sínu í samstarfi við sinn yfirmann. Jafnframt segir að margir hverjir séu ánægðari og afkastameiri með sveigjanlegra vinnufyrirkomulagi. Auk þess sé mikilvægt fyrir fólk með fötlun að geta unnið heima hjá sér.
Tæknifyrirtæki í Bandaríkjunum eru í auknum mæli að biðja starfsfólk um að mæta aftur til vinnu, eins og önnur fyrirtæki. Google og Microsoft hafa sagt starfsfólki sínu að mæta upp á skrifstofu einhvern hluta vikunnar.
Tesla og SpaceX, fyrirtæki undir stjórn Elon Musk, eru hins vegar með ósveigjanlegra vinnuumhverfi. Musk hefur nýlega sagt undirmönnum sínum að þeir þurfi að vinna að minnsta kosti 40 vinnustundir á skrifstofum fyrirtækjanna.