Alvotech tilkynnti nú á dögunum að það myndi hefja undirbúning þess að skrá félagið á aðalmarkað íslensku kauphallarinnar, tveimur mánuðum eftir skráningu þess á First North markaðinn á Íslandi, sem alla jafna er ætlaður minni fyrirtækjum, og Nasdaq markaðinn í Bandaríkjunum.

Í tilkynningunni frá Alvotech kom fram að félagið vildi með þessu ná til breiðari hóps fjárfesta og hugsanlega koma félaginu inn í vísitölu FTSE Russell yfir nýmarkaðsríki. En til stendur að færa Ísland upp um flokk hjá FTSE sem greinendur telja að gæti haft í för með sér 50-55 millljarða innflæði inn á íslenskan hlutabréfamarkað.

Fjórir greiningaraðilar hafa birt opinberlega verðmat sitt á Alvotech frá skráningu félagsins á markað að undanförnu. Greiningaraðilar Northland Capital og DNB voru bjartsýnastir, verðmátu félagið á 21 og 22 dollara á hlut, eða meira en tvöfalt útboðsgengið. Þá verðmátu greinendur Citi hlutabréf Alvotech á 12 dollara á hlut en Deutsche Bank verðmat bréfin 10 dollara á hlut eða í samræmi við útboðsgengið. Hlutabréfaverð Alvotech stendur nú í 84 dölum á hlut.

Lyfin verði verulega arðbær

Alvotech þróar svokölluð líftæknihliðstæðulyf, sem eru mun dýrari í framleiðslu og þróun en hefðbundin samheitalyf svo að mikið fé hefur þurft til að byggja upp reksturinn en þau geta að sama skapi geta reynst mjög arðbær ef vel tekst til. Þannig standa vonir til að áfangagreiðslur vegna lyfjaþróunar og útgáfu frá samstarfsaðilum félagsins geti numið yfir 900 milljónum dollara á næstu árum. 

Viðskiptaáætlun Alvotech sem kynnt var við skráninguna miðar við að félagið velti yfir 800 milljónum dollara árið 2025 og aðlagað rekstrarhagnaðarhlutfall verði yfir 60%. Þá eru stjórnendur félagsins bjartsýnir á að það verði umtalsvert arðbært þegar fleiri lyf bætist við á næstu árum.

Í fjárfestakynningu Alvotech vegna kaupanna var ráðgert að miðað við 15-20 faldan ætlaðan EBITDA hagnað félagsins samkvæmt viðskiptaáætlunum árið 2025 kunni það að vera allt að 7,2-9,6 milljarða dollara virði það ár, en það var metið á 1,8 milljarða dollara fyrir fjármögnunina sem tengdist skráningunni á markað.


Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.