Starfsmannahópur Ankeri Solutions hefur tvöfaldast úr fimm í tíu manns frá því að hugbúnaðarfyrirtækið lauk 350 milljóna króna fjármögnun í haust sem leidd var af vísisjóðnum Frumtaki. Kristinn A. Aspelund, framkvæmdastjóri Ankeri, segir að vísifjármögnunin sé mikil lyftistöng fyrir fyrirtækið.
Ankeri býr til og þróar skýjalausnir sem gera gámaskipaflutningafyrirtækjum kleift að nálgast rekstrarupplýsingar skipa á auðveldan máta. Með lausninni geta eigendur og leigjendur skipa deilt gögnum og upplýsingum sín á milli sem stuðlar að bættri ákvarðanatöku og betri orkunýtingu.
„Við höfum komið upp upplýsingainnviðum þar sem viðskiptavinir geta tekið ákvarðanir með rekjanlegu ferli byggðu á gögnum um hvaða skip eru hentugust fyrir sína flutninga. Það hefur vantað inn í ákvörðunartökuna hvaða skip eyða mestri olíu. Það skiptir miklu máli, bæði út frá umhverfissjónarmiðum en einnig vegna þess að olían getur verið helmingurinn af rekstrarkostnaði skipa. Því er ekki alltaf hagkvæmast að velja ódýrasta skipið í leiguverði.“
Gögn um 15% gámaskipa heims hafa farið í gegnum hugbúnað Ankeri en yfir hundrað fyrirtæki hafa aðgang að lausnum fyrirtækisins. Allar tekjur Ankeri koma erlendis frá. „Það má í rauninni segja að Hamborg sé okkar heimamarkaður,“ segir Kristinn en þar eru flestir greiðandi viðskiptavinir Ankeri í dag þó að öll starfsemin fari fram á Íslandi. Í þýsku borginni er stærsti viðskiptavinurinn Hapag-Lloyd, fimmta stærsta gámaflutningaútgerð heims, en mikið af þeim áhuga sem lausnir Ankeri hafa fengið hefur sprottið úr þróunarsamstarfi með útgerðinni.
Tekjur fyrirtækisins hafi vaxið nokkuð vel að sögn Kristins. Í hinum alþjóðlega flutningageira sé þó mikið um hefðbundna sölumennsku sem vinnst maður á mann og því hefur Covid-farsóttin hægt á sölustarfinu. Með fjármögnuninni í haust hefur Ankeri fjárfest í uppbyggingu á innviðum í sölu- og markaðsstarfi.
Enginn skortur á vaxtartækifærum
Kristinn, sem stofnaði Ankeri ásamt Leifi Kristjánssyni tæknistjóra árið 2016, segir að markmið Ankeri sé að tvöfaldast á ári hverju. Markaðurinn fyrir núverandi hugbúnaðarlausnir fyrirtækisins geti orðið hundrað milljóna dala virði. Til viðbótar séu „spin-off“ tækifæri fyrir nýjar lausnir sem gætu ef til vill orðið stærri að umfangi en þær lausnir sem Ankeri þróar í dag. Flutningamarkaðurinn hefur verið nokkuð í umræðunni vegna raskana á aðfangakeðjum í faraldrinum. Kristinn segir að það hafi verið áhugavert að fylgjast með stöðunni fyrir þá sem lifa og hrærast í þessum heimi.
„Þetta er iðnaður sem er ekki alltaf sýnilegur almenningi. Við sjáum hins vegar þegar á reynir hvað þetta er gríðarlega mikilvægur iðnaður fyrir heimsviðskipti eins og þau eru sett upp í dag. Um 90% af öllum vörum í heiminum eru flutt með skipum.“
Spurður um hvernig grænu orkuskiptin gangi í þessum geira þá segir Kristinn að þau séu enn á byrjunarreit. Þörf sé á töluverðri fjárfestingu í þróun á tækni ásamt uppbyggingu á innviðum og framleiðslu á rafeldsneyti til að styðja við tilfærsluna í græna orku. Hins vegar hafi stór skref verið tekin að undanförnu og bendir hann á að skipafélagið Maersk hafi ákveðið að hefja smíði á flutningaskipum sem nota metanól sem orkugjafa.
Heppin með tímasetningu
Kristinn segir að fjárfestingarumhverfið fyrir nýsköpunarfyrirtæki hafi reynst Ankeri vel. Fyrst hafi fyrirtækið fengið fjármagn frá reyndum frumkvöðlum og árið 2018 fjárfesti svo Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins í fyrirtækinu. Í haust lauk Ankeri 350 milljóna króna fjármögnun, sem var leidd af vísisjóðnum Frumtaki 3, en fyrri hluthafar tóku einnig þátt. „Þessari fjárfestingu fylgir heilmikil reynsla,“ segir Kristinn.
Í stjórn Ankeri sitja fulltrúar frá Frumtaki og Nýsköpunarsjóði ásamt Hermanni Kristjánssyni, stofnanda Vaka, sem hefur einnig fjárfest í fyrirtækinu.
Kristinn segir að það hafi verið ákveðin heppni að á sama tíma og Ankeri var tilbúið í að taka næsta skref í vexti þá séu vísisjóðir nú tilbúnir með fjármagn. Hann bindur vonir við að þegar vísisjóðirnir sem nýverið hafa verið settir á fót verða komnir lengra inn í fjárfestingatímann að þá muni nýir sjóðir taka við keflinu svo að ákveðin samfella myndist.
„Ég tel að það sé mikilvægt fyrir samfélagið ef okkur tekst að halda uppi öflugu fjárfestaumhverfi sem hefur alltaf bolmagn til að styðja við vaxtafyrirtæki sem nota íslenskt hugvit til að sækja skalanlegar gjaldeyristekjur. Ef það tekst þá verðum við með mjög spennandi atvinnulíf hérna.“
Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .