Tekjusamdráttur íslenska hátæknifyrirtækisins Controlant virðist mun meiri en áður var talið en samkvæmt tekjuspám, sem félagið hefur kynnt fjárfestum vegna hlutafjáraukningar og Innherji greinir frá, er útlit fyrir að tekjur dragist saman um sextíu prósent á þessu ári.
Viðskiptablaðið greindi frá því í maí að tekjuspá félagsins fyrir næstu 16 mánuði hefði lækkað um 9 milljarða króna er félagið varð að bregðast við breyttum forsendum sökum samdráttar í Covid-verkefnum.
„Við vorum með langtímaspár frá viðskiptavinum okkar sem gáfu til kynna að tekjur af þessum verkefnum myndu hægt og sígandi fara minnkandi með tímanum. Það var ekki fyrr en í ágúst síðastliðnum sem við fengum viðvörun um algjörlega breytta tekjuspá sem sýndi fram á samdrátt í tekjum með mjög litlum fyrirvara,“ sagði Gísli Herjólfsson, forstjóri Controlant í samtali við Viðskiptablaðið í maí.
Á aðalfundi í maímánuði veittu hluthafar stjórn Controlant heimild fyrir frekari hlutafjáraukningu um allt að 50 milljónir dala, eða allt að 7 milljarða króna.
Controlant áætlar að klára fjármögnunina á næstu vikum en félagið greindi frá því í aðdraganda hlutafjáraukningarinnar að það vonaðist til að landa stórum samningi við Novo Nordisk bráðlega.
Tvær hópuppsagnir á innan við ári
Félagið hefur verið í töluverðum vandræðum á árinu en í ágúst var tekin ákvörðun um að fækka starfsfólki um þriðjung er 150 manns var sagt upp þvert á deildir og starfsstöðvar. Um var að ræða aðra hópuppsögn félagsins á innan við ári.
Í tilkynningu frá Controlant var greint frá því að krefjandi aðstæður á alþjóðamörkuðum og tafir í nýfjárfestingum hefðu markað rekstrarumhverfið undanfarin misseri.
„Í ljósi þessa hefur tekjuspá félagsins verið uppfærð og reynist nauðsynlegt að grípa til aðgerða, þar með talið fækkun starfsfólks til þess að draga úr rekstrarkostnaði og aðlaga starfsemi félagsins að þeim verkefnum sem fram undan eru,“ segir í tilkynningu Controlant.
Verðmeta félagið mun lægra
Í lok ágúst greindi Viðskiptablaðið frá því að viðskipti með hlutabréf Controlant hefðu farið fram á gengi sem var um helmingi lægra en útgáfuverðið í fjármögnunarlotunni sem félagið lauk í fyrra.
Controlant lauk 80 milljóna dala fjármögnun, eða sem nemur 11 milljörðum króna, á seinni hluta síðasta árs.
Þar af var 40 milljóna dala lánsfjármögnun frá breska sjóðnum Apax Credit og 40 milljóna dala hlutafjáraukning sem Gildi lífeyrissjóður leiddi.
Auk þess tóku aðrir lífeyrissjóðir og einkafjárfestar þátt í hlutafjáraukningunni.
Útgáfuverðið í hlutafjáraukningunni var 105 krónur á hlut og var félagið verðmetið á tæplega 64 milljarða króna.
VÍS, sem er í dag dótturfélag Skaga, færði niður gengi Controlant í síðustu uppgjörum sínum, nú síðast í uppgjöri fyrir annan ársfjórðung.
Þar var gengi Controlant í lok júní, sem Skagi miðar við, 80 krónur á hlut en í lok fyrsta ársfjórðungs var það 105 krónur.
Viðmiðunargengi í uppgjöri Sjóvá fyrir annan ársfjórðung var 90 krónur á hlut.
Sjóvá færði eignarhlut sinn niður á fyrsta ársfjórðungi og lækkaði þannig viðmiðunargengið úr 105 í 90 krónur.
Leiðrétting: Í fyrstu útgáfu fréttarinnar var sagt að samdrátturinn yrði um 90% en hann er áætlaður um 60%.