Íslenska hátæknifyrirtækið kom að dreifingu og geymslu yfir sex milljarða bóluefnaskammta frá Pfizer og öðrum lyfjafyrirtækjum og var m.a. með samning við bandaríska ríkið um eftirlit með dreifingu bóluefna. Controlant náði frábærum árangri í þessum verkefnum, en hægt var að nota yfir 99,995% af öllu afhentu bóluefni sem félagið kom að.

Í viðtali við Viðskiptablaðið í apríl 2023 – þegar eftirlit með dreifingu Covid-bóluefna var enn umfangsmesta verkefni fyrirtækisins – sagðist Gísli Herjólfsson, forstjóri og einn stofnenda Controlant, gera ráð fyrir að umfang Covid-verkefnanna myndi ekki endilega minnka hratt, m.a. vegna breyttrar neysluhegðunar og öðruvísi dreifingar.

Íslenska hátæknifyrirtækið kom að dreifingu og geymslu yfir sex milljarða bóluefnaskammta frá Pfizer og öðrum lyfjafyrirtækjum og var m.a. með samning við bandaríska ríkið um eftirlit með dreifingu bóluefna. Controlant náði frábærum árangri í þessum verkefnum, en hægt var að nota yfir 99,995% af öllu afhentu bóluefni sem félagið kom að.

Í viðtali við Viðskiptablaðið í apríl 2023 – þegar eftirlit með dreifingu Covid-bóluefna var enn umfangsmesta verkefni fyrirtækisins – sagðist Gísli Herjólfsson, forstjóri og einn stofnenda Controlant, gera ráð fyrir að umfang Covid-verkefnanna myndi ekki endilega minnka hratt, m.a. vegna breyttrar neysluhegðunar og öðruvísi dreifingar.

„Við vorum með langtímaspár frá viðskiptavinum okkar sem gáfu til kynna að tekjur af þessum verkefnum myndu hægt og sígandi fara minnkandi með tímanum. Það var ekki fyrr en í ágúst síðastliðnum sem við fengum viðvörun um algjörlega breytta tekjuspá sem sýndi fram á samdrátt í tekjum með mjög litlum fyrirvara,“ segir Gísli í viðtali í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.

Munurinn á nýju tekjuspánni og fyrri spá fyrir næstu 16 mánuði fram í tímann, þ.e. frá ágúst 2023 til loka þessa árs, var um 65 milljónir dala, eða tæplega 9 milljarðar króna. Fyrirtækið varð því að bregðast við breyttum forsendum.

Í nóvember tilkynnti Controlant að sökum samdráttar í Covid-verkefnum, sem kröfðust mikils mannafla, væru um 80 störf lögð niður. Til samanburðar störfuðu rúmlega 500 manns hjá fyrirtækinu fyrir breytingarnar.

„Við þurftum að halda úti umfangsmikilli starfsemi til að uppfylla skyldur okkar við eftirlit og dreifingu á bóluefnunum. Þegar við fengum þessa miklu lækkun á tekjuhorfum á einu bretti varð ljóst að við gætum ekki haldið uppi sömu starfsemi lengur. Við urðum því að skala starfsemina niður.“

Í dag starfa um 450 manns hjá Controlant en meirihluti starfsmanna starfar á Íslandi. Fyrirtækið er einnig með starfsstöðvar í Danmörku, Bandaríkjunum, Hollandi og Póllandi.

Fréttin er hluti af ítarlegu viðtali við Gísla í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Þar ræðir hann um gríðarleg vaxtartækifæri í kjarnastarfsemi Controlant og háleit markmið félagsins til framtíðar. Áskrifendur geta nálgast viðtalið í heild sinni hér.