Hálogi Distellery Reykjavík, handverkseimingarhús sem framleiðis gin, vodka, brennivín og ákavíti undir vörumerkinu „Spirits of Iceland“, náðu nýlega samningum við breska og þýska dreifingaraðila og stefna því í útrás. „Við erum búin að vera í viðræmum í meira en ár núna. En núna er búið að taka allar ákvarðanir og leggja inn stórar pantanir.“ Segir Rán Jónsdóttir, verkfræðingur og listakona, eigandi fyrirtækisins.
Hugmyndin að fyrirtækinu kviknaði sumarið 2015 þegar Magnús sonur Ránar, kom heim með landaflösku. Magnús er trommari í þungarokkshljómsveitinni Svarta Dauða, en flöskuna hefði hann fengið að launum fyrir að spila í brúðkaupi. „Flaskan var opnuð heima og hugmyndin kviknaði. Það hlyti að vera hægt að bragðbæta innihaldið.“ Í framhaldi prófuðu mæðginin sig áfram með fyrsta flokks hráefni, svo sem handtýndu íslensku blóðbergi, hvönn og sölvum. „Með góða íslenska vatninu verður því til gin, brennivín og ákavíti sem hefur íslenskt sérkenni.“
Rekstrarumhverfið sérstakt
„Rekstrarumhverfi áfengisframleiðslu er sérstakt á Íslandi,“ segir Rán. „Kostirnir eru þeir að auðvelt er að koma vörum á framfæri í litlu samfélagi, en ókostirnir eru svimandi og óskiljanlega hátt áfengisgjald, sem ekkert land í heiminum kemst nálægt okkur í álögum á áfengi. Því til viðbótar er flutningskostnaður mjög mikill.“
Nánar er fjallað um Spirits of Iceland í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið, en einnig er fjallað um:
- Farið er yfir framlög úr ríkissjóði til stjórnmálaflokka á tímabilinu 2010 til 2022.
- Innkoma Google Wallet til Íslands mun hraða þeirri þróun að stafræn veski leysi kortaveski af hólmi, að sögn framkvæmdastjóri Leikbreytis.
- Ferðaskrifstofa Andra Más Ingólfssonar, fyrrverandi eiganda Primera Travel Group, skilaði hagnaði í fyrra.
- Týr fjallar um viðskiptahætti Embættis Landlæknis.
- Huginn og Muninn eru á sínum stað.
- Gróa Björg Baldvinsdóttir segir spennandi vinnu framundan við að byggja upp nýtt svið innan Terra umhverfisþjónustu.
- Fjallað um mikla virðisaukningu Nova síðasta vetur.
- Verðtryggð vaxtakjör lífeyrissjóðanna tekin fyrir eftir afar ólíkar ákvarðanir á því sviði nýlega.