Alls verða sjö frambjóðendur í stjórnarkjöri Sýnar sem fer fram á aðalfundi félagsins, en þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Aðalfundurinn fer fram klukkan 10 miðvikudaginn 31. ágúst.
Þeirra á meðal eru sitjandi stjórnarmenn félagsins, þau Jóhann Hjartarson, Páll Gíslason, Petrea Ingileif Guðmundsdóttir og Sesselía Birgisdóttir. Auk þeirra bjóða sig fram þeir Hilmar Þór Kristinsson framkvæmdastjóri Reir, Jón Skaftason, fyrrum framkvæmdastjóri Strengs Holding og forsvarsmaður Gavia, og Reynir Finndal Grétarsson, stofnandi og fyrrum framkvæmdastjóri Credit Info og fyrrum forstjóri SaltPay. Allir eiga þeir það sameiginlegt að hafa nýlega keypt stóran hlut í Sýn.
Tilnefningarnefnd hefur metið alla núverandi stjórnarmenn sem eru í framboði hæfa til að gegna áfram stjórnarstörfum en auk þess metur nefndin alla einkafjárfestannna sem eru í framboði hæfa.
Sjá einnig: Telur fjárfesta vanmeta Sýn verulega
Í lok júlí keypti fjárfestingafélagið Gavia Invest ehf., tæplega 15% hlut í Sýn og varð þar með stærsti hluthafi félagsins. Í kjölfarið krafðist félagið hluthafafundar til að kjósa nýja stjórn. Í dag heldur Gavia á 10,92% hlut og er næst stærsti hluthafinn á eftir Gildi lífeyrissjóði. Félagið er meðal annars í eigu Reynis Grétarssonar og Jóns Skaftasonar.
Í byrjun ágúst keypti Fasti ehf., félag í eigu hjónanna Hilmars Þórs Kristinssonar og Rannveigar Eirar Einarsdóttur, 7,7% hlut í Sýn.
Fimm munu skipa stjórn félagsins og tveir sitja í varastjórn. Margfeldiskosningu verður beitt við stjórnarkjörið en þannig gefst hluthöfum kostur á að skipta atkvæðamagni sínu í hverjum þeim hlutföllum sem þeir kjósa sjálfir. Þannig geta hluthafar til dæmis lagt öll atkvæði sín á einn frambjóðanda.
Hér að neðan má sjá framboðslistana í heild sinni:
Framboð til aðalstjórnar:
- Hilmar Þór Kristinsson
- Jóhann Hjartarson
- Jón Skaftason
- Páll Gíslason
- Petrea Ingileif Guðmundsdóttir
- Reynir Finndal Grétarsson
- Sesselía Birgisdóttir
Framboð til varastjórnar:
- Daði Kristjánsson
- Óli Rúnar Jónsson
- Salóme Guðmundsdóttir