Stjórnendur fjölmargra íslenskra fyrirtækja hittust á Grand Hótel í morgun og æfðu viðbrögð við alvöru netárás. Um hundrað manns tóku þátt í æfingunni sem stýrð var af öryggissérfræðingum Syndis og Origo.
Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem slíkur viðburður er haldinn á Íslandi.
„Æfingin heppnaðist afar vel og þátttakendur stóðu sig prýðilega í að bregðast við alvöru netárás. Það er staðreynd að á heimsvísu lentu yfir 70% fyrirtækja í einhvers konar netárás árið 2023 og 60% lítilla og milli stórra fyrirtækja urðu gjaldþrota innan sex mánaða frá netárás,“ segir Örn Þór Alfreðsson, framkvæmdastjóri Þjónustulausna Origo.
Eiður Eiðsson, framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar og upplýsingatækni hjá Högum, var einn þátttakenda en að hans mati var æfingin frábær og gríðarlega gagnleg.
„Æfingin opnar augu manns fyrir því flókna ferli og þeim stóru ákvörðunum sem fyrirtæki standa frammi fyrir þegar um netárás er að ræða og hversu gott það er að vera vel undirbúinn fyrir slíkar aðstæður,“ segir Eiður.
Að sögn Antons Más Egilssonar, forstjóra Syndis, snerist æfingin um stjórnun á meðan og eftir árás og var engin krafa gerð um tækniþekkingu til þess að fara í gegnum hana. „Við höfum séð töluvert af árásum og tilraunum til þeirra að undanförnu. Það vill enginn lenda í slíku án þess að hafa viðbragðsáætlanir eða hafa æft viðbrögð við þeim,“ segir Anton.