Óvenju lítið er að frétta af fasteignamarkaði þessi dægrin sem aldrei þessu vant virðist vera í þokkalegu jafnvægi, í það minnsta ef horft er til verðþróunar.

Helsta breytingin nýverið hefur verið mikil aukning söluframboðs, sem hefur margfaldast á skömmum tíma, en hvorki er að sjá að það hafi haft mikil áhrif á verð né veltu sem hvort tveggja hafa haldist nokkuð stöðug í einhvern tíma.

Lýsa mætti nýliðnu ári sem hóflegum varnarsigri fyrir markaðinn, sem margir höfðu spáð að færi að fipast aðeins flugið eftir annað tímabil ævintýralegra hækkana á innan við áratug. Þegar upp var staðið kostaði fermetrinn á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali 4,5% meira nú um áramótin en ári áður, þó það samsvari að vísu ríflega 3% lækkun á föstu verðlagi.

Þar gæti þó verið á ferð vísbending um hvað kann að vera í vændum, þar sem fregnir hafa borist af því að erfiðara sé að verða að selja nýjar eignir, sem komi sér illa fyrir byggingariðnað sem hefur ekki farið varhluta af vaxtahækkunum síðustu missera og ræður því illa við að sitja uppi með óseldar eignir og há lán.

Samhliða hefur hægt nokkuð á byggingaframkvæmdum á fyrstu byggingastigum sem fyrirséð er að muni koma niður á framboði innan fárra ára, en samkvæmt könnun sem framkvæmd var fyrir Samtök iðnaðarins reikna stjórnendur verktakafyrirtækja með 29% samdrætti í fjölda íbúða sem byrjað verði að byggja.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Fasteignamarkaður. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.