Apple hyggst stöðva sölu á Apple Watch snjallúrunum sínum á næstu dögum þar sem fyrirtækið undirbýr sig fyrir að standast mögulegt innflutningsbann bandarískra yfirvalda sem rekja má til úrskurðar alþjóðaviðskiptanefndar Bandaríkjanna um blóð-súrefnis skynjara á ákveðnum týpum af snjallúrinu. Wall Street Journal greinir frá.
Alþjóðaviðskiptanefndin úrskurðaði í október síðastliðnum að Apple hefði brotið einkaleyfi í flestum nýjum týpum af úrinu frá árinu 2020. Ríkisstjórn Biden voru gefnir 60 dagar til að endurskoða ákvörðunina en frestinum lýkur á jóladag.
Apple segist ætla að stöðva sölu, þar á meðal á Apple Watch Series 9 og Apple Watch Ultra 2, til að ráðast í fyrirbyggjandi aðgerðir ef úrskurðurinn mun standa óhaggaður.
„Apple er afar ósammála úrskurðinum og skoðar nú fjölbreytt lagaleg og tæknileg úrræði til að tryggja að Apple Watch verði áfram í boði fyrir viðskiptavini okkar,“ sagði félagið.
Málið snýr að kvörtun heilbrigðistæknifyrirtækisins Masimo frá árinu 2021 þar sem það hélt því fram að Apple hefði brotið gegn einkaleyfum sínum sem tengjast mælingum á súrefni í blóði. Í flestum Apple Watch úrum framleiddum frá árinu 2020 og síðar er svokallaður púlssúrefnismælir.
Hlutabréfaverð Apple hefur fallið um meira en 1% í frá opnun markaða vestanhafs í dag.
