„Við viljum beina sjónum að því hvernig hægt er að virkja þessa dýrmætu og ótakmörkuðu auðlind, sem er hugverkið. Þegar litið er til baka hafa stórhuga hugmyndir og ákvarðanir, sem voru á þeim tíma oft erfiðar og umdeildar, leitt til mikilla framfara. Það er hægt að vísa í margt í því tilliti, hvort sem það var uppbygging á orkuinnviðum, sem snerist um að beisla jarðhitann, virkja vatnsafl og búa til meira virði úr náttúruauðlindum okkar, eða að útvíkka fiskveiðilögsöguna sem hefur skilað miklum ávinningi fyrir þjóðarbúið og samfélagið allt,“ segir Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins (SI).
Yfirskriftin á 30 ára afmælisþingi SI, sem haldið var nú í vikunni, er Hugmyndalandið – dýrmætasta auðlind framtíðarinnar. Árni segir margt kalla á að það þurfi að taka fleiri stórar ákvarðanir í nútímanum og náinni framtíð. Þar séu orkumálin sérstaklega aðkallandi og segir Árni stöðu þeirra mjög alvarlega.
„Það sem opnaði þessa umræðu [um orkumál] á ný voru metnaðarfull markmið stjórnvalda í loftslagsmálum sem sett voru fyrir nokkrum árum og eru í línu við markmið annarra landa. Þetta kallaði á ítarlega greiningu á því hvar við stöndum í þessum málum, m.a. hvað varðar orkuskipti. Fólk taldi að Ísland væri í forystu í framleiðslu á grænni orku í samanburði við flest önnur lönd og hér þyrfti því ekki miklu að breyta svo markmiðunum yrði náð. En eftir greiningu SI á stöðunni kom í ljós að við höfum í raun stóraukið innflutning á jarðefnaeldsneyti á síðustu árum á meðan mjög lítið hefur verið aflað af nýrri grænni orku á síðustu 10-15 árum. Raforka er uppseld í landinu sem gerir það að verkum að við getum ekki ráðist í verkefni sem við viljum fara í út frá orkuskiptum, eða nýjum vaxtatækifærum, sérstaklega í orkugeiranum. Þar má nefna ýmis græn verkefni sem myndu byggja undir framtíðarhagvöxt og lífskjör þjóðarinnar.“
Í neyðarástandi verður nýsköpun hraðari
Spurður hvað þurfi að gerast til að farið verði í aðgerðir í orkumálum segir Árni þurfa aukna samstöðu, stefnumörkun og þor til ákvarðana. Horfa þurfi til mismunandi leiða til orkuöflunar.
„Evrópa hefur tekið stór skref í orkuöflunarmálum vegna þeirrar orkukreppu sem þar skall á í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Þar hefur fólk verið snöggt að finna nýjar leiðir til að afla orku í krísu, en við höfum sofið á verðinum allt of lengi og ekki verið nógu dugleg að skoða þá kosti sem eru í boði. Í neyðarástandi verður nýsköpun hraðari. Staðreyndin er sú að við þurfum meiri raforku hvort sem það er gert með vatnsafli, jarðhita, vindorku, sólarorku eða með því að virkja sjávarföllin, sem er þó lausn sem er fjær okkur á sjóndeildarhringnum. Það eru fleiri kostir og möguleikar á borðinu en fyrir tíu árum síðan og það þarf að skoða gagnrýnum augum hvernig við ætlum að afla orkunnar. Sem betur fer hefur orkumálaráðherra verið öflugur talsmaður þess að fara hratt í aðgerðir, og það hillir undir jákvæðar breytingar með erfiðum en aðkallandi ákvörðunum. En það virðist þurfa meira til. Aukin samstaða, skýr stefnumörkun í þessum málaflokki og ekki síst að framkvæmdarvaldið – stjórnkerfið – gangi í takt við vilja meirihluta Alþingis og þjóðarinnar. Þá fyrst náum við fram nauðsynlegum breytingum.“
Mikil vaxtartækifæri
Árni segir mikil vaxtartækifæri í íslenskum iðnaði, sérstaklega í hugverkaiðnaðinum. Til að grípa tækifærin verði allur aðbúnaður og starfsumhverfið að vera í lagi.
„Á Iðnþinginu fyrir ári síðan tókum við sérstaklega fyrir vaxtartækifæri í iðnaði og greindum frá okkar sýn í þeim efnum. Við þekkjum vel öflug fyrirtæki í hugverkaiðnaði eins og Marel, CCP, Össur, Alvotech, Controlant og Kerecis. Fjölmörg önnur fyrirtæki bíða þess að springa út og taka flugið enn frekar, sem við getum verið afar stolt af. Þar fyrir utan eru sprotar í fjölbreyttum geirum eins og menntatækni, tölvuleikjaiðnaði, lyfjaiðnaði, lífog heilbrigðistækni og grænum loftslags- og umhverfislausnum að koma upp. Það eru mikil vaxtartækifæri fyrir þessar greinar svo lengi sem við bjóðum þeim upp á gott starfsumhverfi. Þar skiptir miklu máli að fyrirtækin fái fólk með viðeigandi menntun og reynslu til að starfa hjá sér.“
Viðtalið birtist í sérblaðinu Iðnþing 2024. Hægt er að lesa það í heild hér.