Seðlabanki Japans tilkynnti í morgun um 0,25 prósenta stýrivaxtahækkun og kynnti áform um að draga úr mánaðarlegum kaupum á skuldabréfamarkaði um helming til þess að herða á taumhaldi peningastefnunnar.
Á sama tíma og stórir vestrænir seðlabankar undirbúa vaxtalækkanir fer japanski seðlabankinn nú í öfuga átt, m.a. til að draga úr vaxtamun sem hefur stuðlað að verulegri veikingu á jeninu. Gjaldmiðillinn styrktist um meira en eitt prósent eftir vaxtaákvörðun seðlabankans, að því er segir í frétt Financial Times.
Seðlabanki Japans hækkaði vexti í fyrsta sinn í 17 ár í mars síðastliðnum og lauk þar með átta ára tímabili neikvæðra nafnvaxta hjá bankanum. Eftir vaxtahækkunina sem tilkynnt var í morgun hafa vextir bankans ekki verið hærri frá árinu 2008. Stýrivextir bankans eru nú í kringum 0,25%.